Hvaða starfsemi færi í dótturfélagið?

Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu um Ríkisútvarpið í vikunni.
Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu um Ríkisútvarpið í vikunni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ríkisendurskoðun skilaði í vikunni úttekt sinni á Ríkisútvarpinu ohf., en hún var unnin eftir fyr­ir­spurn mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­is um fjár­hags­lega aðgrein­ingu al­mannaþjón­ustu og sam­keppn­is­rekst­urs í bók­haldi fé­lags­ins. Niðurstaðan er meðal annars sú að Ríkisútvarpinu beri að stofna dótturfélag fyrir aðra starfsemi en fjölmiðlun í almannaþágu, nema stjórnvöld beiti sér fyrir lagabreytingu. Hefur Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, þegar falið stjórn RÚV að stofna dótturfélag fyrir áramót.

En hvað fellst í almannaþjónustu og hvað fellur undir samkeppnisrekstur? Í lögum um stofnunina segir meðal annars: „Fjölmiðlaefnið skal hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni.“ Þannig er í raun nokkuð opið hvaða fjölmiðlunarefni falli undir almannaþjónustuna, en Fjölmiðlanefnd hefur þó eftirlit með að RÚV uppfylli almannaþjónustuhlutverk sitt.

Mbl.is óskaði því eftir svörum frá Margréti Magnúsdóttur, starfandi útvarpsstjóra, hvað muni nákvæmlega færast undir dótturfélagið og hvað verði áfram hluti af almannaþjónustunni.

Lilja Alfreðsdóttir hefur falið stjórn RÚV að stofna dótturfélag undir …
Lilja Alfreðsdóttir hefur falið stjórn RÚV að stofna dótturfélag undir samkeppnisreksturinn fyrir áramót. mbl.is/​Hari

Í skriflegu svari segir Margrét að samkeppnisreksturinn sé afmarkaður hluti af starfsemi RÚV og snúi að tekjuöflun sem renni til þess að búa til dagskrá hjá stofnuninni. Þar sé til dæmis sala auglýsinga, sala á dagskrárefni og sýningarréttur á eigin framleiðslu, samframleiðsla á efni með erlendum sjónvarpsstöðvum og fyrirtækjum, sala á dagskrárefni til almennings, leiga á aðstöðu, tækjum og búnaði og sala á þjónustu og hlutum sem tengjast dagskrárefni.

„Ekki er verið að vísa til dagskrárgerðar í þessu samhengi. Það er ekki verið að fjalla um hvort einhver tiltekin dagskrárgerð á RÚV, eða þess vegna dagskráin í heild sinni, teldist þannig samkeppni við aðra miðla,“ segir Margrét í svari sínu.

Hún tekur þó fram að á síðustu fimm árum hafi RÚV reynt að skerpa markvisst á almannaþjónustuhlutverki sínu og aukið áherslu á innlent efni, menningarefni og að efla þjónustu við börn. Á þessu tímabili hafi íslenskt efni í dagskrá stofnunarinnar aukist um 23% og bandarískt efni minnkað um 45%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert