Jón Steinar: Benedikt ætti að hætta sem dómari

Jón Steinar fagnar niðurstöðu Landsréttar en hún kom honum ekki …
Jón Steinar fagnar niðurstöðu Landsréttar en hún kom honum ekki í opna skjöldu. Ljósmynd/Aðsend

„Ef dómararnir, sem höfðu greinilegan vilja til að gera honum til geðs, hefðu talið mig hafa brotið af mér við umfjöllun mína um þennan dóm þá hefðu það verið meiriháttar tíðindi á Íslandi. Þá hefði valdi verið beitt til þess að hindra umfjöllun um dómsstólana,“ segir Jón Stein­ar Gunn­laugs­son, lögmaður og fyrr­ver­andi dóm­ari við Hæsta­rétt. 

Hann var í dag sýknaður í Lands­rétti af meiðyrðamáli Bene­dikts Boga­son­ar hæsta­rétt­ar­dóm­ara.

„Ég fagna því auðvitað að ég sé sýknaður af þessum kröfum en það gat reyndar að mínu áliti aldrei öðruvísi farið. Niðurstaðan er auðvitað sú að jafnvel þó hann [Benedikt] sé formaður dómsstólasýslunnar sem gerir tillögur um fjárveitingar til dómsstólanna og hafi auðvitað haft dómarana vilhalla sér þá treysta þeir sér ekki til þess að verða við þessum kröfum hans því þær eru svo vitlausar.“

Benedikt nefndur einu sinni á nafn

Jón Steinar telur Benedikt ekki starfi sínu vaxinn. „Þetta hlýtur að vera mikið áfall fyrir manninn og ætti hann að hætta sem hæstaréttardómari því maðurinn er með svo skerta dómgreind að hann getur auðvitað ekki gegnt því starfi.“

Í mál­inu fór Bene­dikt fram á að um­mæli í bók Jóns Stein­ars Með lognið í fangið - Um af­glöp Hæsta­rétt­ar eft­ir hrun yrðu dæmd dauð og ómerk. Í bókinni gagnrýnir Jón Steinar m.a. dóm Hæstaréttar sem Benedikt og fleiri komu að. 

Þó Jón Steinar sé sýknaður þá segir í dómi Landsréttar að í ummælum hans hafi falist alvarlegar ásakanir. Það segir Jón Steinar fjarstæðu. 

„Ég fjalla um þennan dóm í löngum kafla í bók minni og fer yfir í mörgum atriðum annmarka á þeim dómi, meðal annars það að maðurinn var dæmdur fyrir annað en hann var ákærður fyrir og fleira. Í lokin á þeirri umfjöllun, sem er málefnaleg og rökstudd, þá segi ég frá því hverjir hafi setið í málinu. Það er í eina skiptið sem hann [Benedikt] er nefndur á nafn.“

Segir eðlilegt að nota orðið dómsmorð

Benedikt byggði mál­sókn sína á því að um­mæl­in „dóms­morð“ væru ærumeiðandi aðdrótt­an­ir eins og þau birt­ust í bók­ Jóns Steinars. Sá síðarnefndi segir að hugtakið sé margnotað og því ekki óeðlilegt að nota það með þeim hætti sem hann gerði í bókinni. 

„Ég segi að þetta sé dómsmorð og það er tekin upp skilgreining á því orði sem norskur hæstaréttarlögmaður hafði um miðbik síðustu aldar og það er auðvitað ekkert athugavert við að nota það orð. Menn hafa notað það aftur og aftur. Meðal annars notaði forsætisráðherra þjóðarinnar það á Alþingi þegar verið var að ræða Guðmundar- og Geirfinnsmálin á þingi 1996 eða 1997. Það er margnotað hugtak í þessum fræðum.“

Benedikt baðst undan viðtali og vísaði á lögmann sinn. Ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert