Mótmæla spillingu á Austurvelli

Hatari mun koma fram á mótmælunum á Austurvelli.
Hatari mun koma fram á mótmælunum á Austurvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnarskrárfélagið, Efling stéttarfélag, Öryrkjabandalag Íslands, Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá, Gegnsæi, samtök gegn spillingu, og hópur almennra borgara og félagasamtaka ætla að standa fyrir mótmælafundi á Austurvelli á morgun.

Um 1.200 manns hafa þegar lýst yfir áhuga á viðburðinum sem stofnaður hefur verið á Facebook, en þar segir um mótmælin að almennir borgarar þurfi að taka málin í sínar hendur. Það sé undir almenningi komið hvort búið sé við lýðræði eða auðræði.

„Almenningur í Namibíu er rændur af íslenskri stórútgerð. Almenningur á Íslandi er rændur arðinum af auðlindum sínum. Tugir milljarða eru færðir árlega í vasa stórútgerða sem ættu að renna í sjóði almennings til uppbyggingar samfélagsins,“ segir í viðburðarlýsingunni.  

Ræðumenn á fundinum verða þau Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Atli Þór Fanndal blaðamaður og Þórður Már Jónsson lögmaður, auk þeirra mun Hatari koma þar fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert