Verkfalli blaðamanna aflýst

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verkfalli félaga Blaðamannafélags Íslands sem starfa á mbl.is, vis­ir.is og fretta­bla­did.is, auk töku­manna og ljós­mynd­ara hjá Árvakri, Rík­is­út­varp­inu, Sýn og Torgi, sem hefjast átti nú kl. 10 og standa til kl. 22, hefur verið aflýst.

Þetta staðfestir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, í samtali við mbl.is. 

Að hans sögn telur samninganefnd Blaðamannafélagsins fullreynt að laga lífskjarasamninginn, sem Samtök atvinnulífsins hafa boðið, að þörfum félagsins og því það eina í stöðunni að bera hann undir félagsmenn.

Við stóðum bara frammi fyrir tveimur mjög slæmum kostum og við völdum þann kost sem við töldum vera skárri. Það var annaðhvort að fara með deiluna í mjög erfiðan hnút eða ganga til viðræðna á grundvelli tilboðs sem við fengum frá SA, sem er í grunninn bara lífskjarasamningurinn.“

„Það sem út úr því kemur er að þetta verður borið fyrir félagsmenn og þeir þurfa að taka afstöðu. Sá tímapunktur er kominn, að mati samninganefndarinnar, að hleypa félagsmönnum að borðinu. Samninganefndin hefur reynt eins og hún hefur getað en niðurstaðan er þessi, þótt hún sé vond og ekki að skapi samninganefndarinnar.“

Nánar verður farið yfir ákvörðun samninganefndar með félagsmönnum á fundi í húsnæði Blaðamannafélagsins í hádeginu.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ætlar ekki að tjá sig um deiluna í dag.

Tekið skal fram að flest­ir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is