„Okkur brá mjög mikið“

Hallfríður Þóra Tryggvadóttir og Vala Ómarsdóttir, höfundar stuttmyndarinnar ÉG, að …
Hallfríður Þóra Tryggvadóttir og Vala Ómarsdóttir, höfundar stuttmyndarinnar ÉG, að loknum tökum. Myndin var sýnd á hinsegin kvikmyndahátíð í Rússlandi á dögunum en sýning á myndinni frestaðist um nokkra daga sökum sprengjuhótunar. Ljósmynd/Aðsend

Kvikmyndagerðarkonunum Hallfríði Þóru Tryggvadóttur og Völu Ómarsdóttur var óneitanlega mjög brugðið þegar þeim bárust fregnir af því á dögunum að sýningu á stuttmynd þeirra, ÉG, var frestað á hinsegin kvikmyndahátíð í Rússlandi vegna sprengjuhótana. „Okkur brá mjög mikið og maður fór strax að hugsa til hátíðargesta,“ segir Hallfríður í samtali við mbl.is. 

ÉG er skrifuð og leikstýrð af Hallfríði og Völu en þær hafa unnið saman í nokkur ár undir merkjum GERVI Productions og er stuttmyndin þeirra stærsta sameiginlega verkefni til þessa. Myndin er innblásin af reynslu Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur, einnar helstu talsmanneskju trans fólks á Íslandi. 

Hátíðin bönnuð af stjórnvöldum frá upphafi

Myndin var frumsýnd á íslensku kvikmyndahátíðinni RIFF í fyrrahaust og fyrir nokkrum mánuðum sýndu forsvarsmenn Side by Side LGBT kvikmyndahátíðarinnar í St. Pétursborg myndinni áhuga. „Teymið þeirra vildi sjá myndina og skömmu síðar var okkur boðin þátttaka. Við sögðum já á stundinni og erum mjög þakklátar fyrir að taka þátt í svona mikilvægri hátíð en þetta er eina hátíð hinsegin kvikmynda í Rússlandi,“ segir Hallfríður. 

Hátíðin var sett 14. nóvember og fyrsta sprengjuhótunin barst strax á opnunarathöfn hátíðarinnar og héldu þær ítrekað áfram yfir helgina. „Myndin okkar átti að vera sýnd föstudagskvöldið 15. nóvember og allt virtist ætla að ganga upp. Við fréttum ekki af þessu fyrr en við sáum tilkynningu á samfélagsmiðlum um að það hafi þurft að rýma Sokos hótelið þar sem hátíðin fer fram og að sýningunni hafi verið frestað,“ segir Hallfríður.  

Hinsegin samfélagið í Rússlandi hefur mátt sæta miklum fordómum og réttindabarátta samkynhneigðra er skammt á veg komin í Rússlandi. Eins sorglegt og það kann að hljóma hafa sprengjuhótanir fylgt Side by Side kvikmyndahátíðinni allt frá því að hún var haldin í fyrsta skipti árið 2008 en þá var hátíðin bönnuð af rússneskum yfirvöldum. „Síðan þá hefur hátíðin verið haldin árlega en það hafa komið upp sprengjuhótanir og mótmæli, meira að segja frá þingmanni. Ástandið er alls ekki gott þarna,“ segir Hallfríður.

Snæfríður Ingvarsdóttir, Vala Ómarsdóttir, Hallfríður Þóra Tryggvadóttir og Ugla Stefanía …
Snæfríður Ingvarsdóttir, Vala Ómarsdóttir, Hallfríður Þóra Tryggvadóttir og Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir á frumsýningu ÉG á RIFF haustið 2018. Ljósmynd/Aðsend

Fannst vanta fleiri kvikmyndir um trans fólk

Enginn fótur virtist vera fyrir sprengjuhótununum, sem betur fer, og var nýjum sýningartíma fyrir myndina komið á nokkrum dögum seinna og segir Hallfríður það hafa verið mikinn létti að sjá að allt gekk vel að lokum. „Það var fullur salur af fólki og rosa góðar móttökur. Það er alltaf pínu skrítið þegar maður er ekki á staðnum til þess að heyra viðbrögð og svara spurningum úr sal en það er oft þannig með stuttmyndir sem flakka um heiminn,“ bætir hún við. 

ÉG var sem fyrr segir frumsýnd á RIFF í fyrra og var frumsýnd erlendis í mars á þessu ári. Síðan þá hefur myndin verið sýnd á fjölmörgum hátíðum og verið þýdd yfir á 13 tungumál. Myndin hlaut verðlaun fyrir bestu stuttmyndina á Vancouver International Women in Film Festival, var heiðruð af dómnefnd Outfest-kvikmyndahátíðarinnar í Lost Angeles og var valin besta leikna stuttmyndin á Trans Pride Brighton. Myndin var einnig hluti af alþjóðlega verkefninu Five Films 4 Freedom á vegum British Film Institute og British Council. Í þessum mánuði hefur myndin verið sýnd í Rússlandi, Litháen, Hollandi og Þýskalandi, og hún var meðal annars á hátíðum í Danmörku, Kanada og Bandaríkjunum fyrr í haust.

ÉG átti í fyrstu að vera leiksýning en í miðju rannsóknarferli komust Hallfríður og Vala að því að kvikmyndamiðillinn væri hentugri leið til að segja söguna. „Okkur fannst vanta fleiri leiknar kvikmyndir um trans fólk og allt myndmálið sem við Vala höfðum í huga hentaði mun betur fyrir kvikmynd. Við gáfum okkur góðan tíma til þess að vinna handritið og allt var unnið í mjög nánu samstarfi við Uglu,“ segir Hallfríður. 

ÉG fjallar um unga trans manneskju og mikilvægi þess að fá að vera maður sjálfur. Leikarar í helstu hlutverkum eru Snæfríður Ingvarsdóttir, María Thelma Smáradóttir, Kristbjörg Kjeld og Elva Ósk Ólafsdóttir.

Myndinni hefur verið vel tekið víða og stefna Hallfríður og Vala á að sýna myndina á fleiri kvikmyndahátíðum erlendis og einnig hér heima. „Þegar við frumsýndum myndina á RIFF í fyrra unnum við samstarfsverkefni með Samtökunum ´78 og sýndum myndina fyrir menntaskólanema í Reykjavík en það er algjörlega eitthvað sem okkur langar að gera meira af,“ segir Hallfríður. 


mbl.is