„Ekki eðlilegt fólk þarna í forsvari“

Bræðurnir Ágúst Arnar og Einar Ágústssynir eru stjórnarmenn Zuism. Þeir …
Bræðurnir Ágúst Arnar og Einar Ágústssynir eru stjórnarmenn Zuism. Þeir eru þekktir sem Kickstarter-bræður og voru báðir til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara fyrir nokkrum árum. Einar var svo dæmdur í fangelsi fyrir tugmilljóna króna fjársvik. mbl.is

Trúfélagið Zuism hefur ekki fengið nein sóknargjöld greidd frá ríkinu á þessu ári, þar sem talið er óvíst hvort félagið uppfylli þau skilyrði sem trú- og lífsskoðunarfélögum ber að uppfylla. Félagið hefur þegar höfðað mál á hendur ríkinu af þessum sökum og verður það tekið fyrir á næstunni. Zuism fékk rúmar 84,7 milljónir króna í sóknargjöld á árunum 2016-2018 og hefur safnað upp tugmilljóna eignum.

Formaður Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, segir „alveg skelfilegt“ að fullt af fólki sé enn skráð í Zuism, enda sé trúfélagið í höndum manna sem sé lítt treystandi. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá voru 1.382 einstaklingar skráðir í félagið í upphafi þessa mánaðar. Fjöldi skráðra félaga í trúfélög 1. desember ár hvert ræður því hversu há sóknargjöld trúfélög fá frá ríkinu.

Í vikunni tapaði Zuism gegn ríkinu fyrir dómstólum. Það mál varðaði kröfu félagsins um að fá dráttarvexti greidda frá ríkinu vegna sóknargjalda sem haldið var eftir um tíma á árunum 2016 og 2017 á meðan að óvissa og deilur voru uppi um hver væri í forsvari fyrir trúfélagið.

Margt óljóst að mati eftirlitsaðilans

Halldór Þormar Halldórsson, sem annast skráningu og eftirlit með trúfélögum hjá sýslumannsembættinu á Norðurlandi eystra, segir í samtali við mbl.is að ákveðnar efasemdir séu uppi um hvort félagið uppfylli skilyrði þess að vera trúfélag, auk þess sem það liggi ekki alveg ljóst fyrir, að mati embættisins, hver sé forstöðumaður trúfélagsins.

Halldór Þormar Halldórsson fylgist með starfsemi trúfélaga í starfi sínu …
Halldór Þormar Halldórsson fylgist með starfsemi trúfélaga í starfi sínu hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einnig er efast um lögmæti þess að trúfélag geti haft það að markmiði að endurgreiða sóknargjöld, eins og forsvarsmenn Zuism hafa lofað að gera, þó óljóst hafi verið með efndir í þeim efnum og ferlið verið ógagnsætt á undanförnum árum. Félagið hefur aldrei opinberað neitt um þessar endurgreiðslur, þrátt fyrir að fjölmiðlar hafi þráspurt um upplýsingar um þær undanfarin á.

Eftirlitsaðilinn efast um að starfsemi félagsins eigi sér nokkrar forsendur og að nokkur raunveruleg starfsemi, trúarsamkomur eða –athafnir fari fram á vegum þess, þó að slíkt komi fram í skýrslum félagsins. „Það er líka aðeins vísað til þess í þessum nýfallna dómi, að það séu efasemdir um það,“ segir Halldór Þormar við blaðamann.

Forstöðumaður sagðist hættur en hélt áfram

Ágúst Arnar Ágústsson er skráður forstöðumaður félagsins og bróðir hans Einar Ágústsson er skráður í stjórn félagsins með honum, en Sóley Rut Magnúsdóttir, sem skráð var sem stjórnarmaður á ársskýrslum félagsins árum saman, hefur skráð sig úr henni.

Þeir eru því tveir eftir í stjórninni bræðurnir, sem kenndir eru við bandarísku hópfjármögnunarsíðuna Kickstarter, vegna nokkurra verkefna sem þeir voru að kynna og fjármagna þar. Fjallað var um þessa frumkvöðlastarfsemi bræðranna í Kastljósi á RÚV árið 2015.  Meðal verkefna sem bræðurnir stóðu fyrir var þróun á vindmyllu, sem nýsjálenskur verkfræðingur sagði eftirminnilega, í viðtali við Stundina, að bryti hreinlega í bága við nokkur lögmál eðlisfræðinnar. Hvorki meira né minna. 

Ótengd mál leiddu svo til þess að þeir voru báðir til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara hérlendis. Einar Ágústsson var ákærður vegna fjársvika upp á 74 milljónir króna í kjölfar rannsóknar yfirvalda og þriggja og hálfs árs fangelsisdómur hans vegna málsins var staðfestur fyrir um það bil ári síðan.

Ágúst Arnar var hins vegar hvorki ákærður né dæmdur vegna viðskiptaævintýra bræðranna. Hann fór af krafti út í trúmálin og stóð í deilum við hóp fólks, sem var búinn að taka Zuism yfir í einskonar mótmælaaðgerð gegn innheimtu sóknargjalda árið 2015. Hugmyndin um endurgreiðslu sóknargjalda kom frá þeim hópi, en ekki Ágústi Arnari og Einari, sem reyndu ekki að sýna fram á yfirráð sín yfir trúfélaginu fyrr en fjöldinn í söfnuðinum hafði vaxið umtalsvert.

Hér er teikning af musteri sem forsvarsmenn Zuism sögðust eitt …
Hér er teikning af musteri sem forsvarsmenn Zuism sögðust eitt sinn vilja byggja.

Zuism hafði verið óvirkt trúfélag um skeið og ekki skilað inn neinum ársskýrslum, en bræðurnir stofnuðu félagið í félagi við annan mann árið 2013. Skráðir félagsmenn í Zuism voru tveir árið 2014, fjórir í upphafi árs 2015, en 1. janúar 2016 voru félagarnir orðnir 3.087 talsins.

Mikið af ungu fólki gekk til liðs við söfnuðinn, í von um að fá sóknargjöld sín endurgreidd og fékk tiltækið mikla athygli í samfélaginu á sínum tíma eins og lesa má um í fréttaskýringu mbl.is frá þessum tíma, sem finna má með því að ýta á hlekkinn sem er hér að neðan.

Það er óþarfi að rekja þá sögu nánar hér í löngu máli, henni hefur ítrekað verið gerð skil í fjölmiðlum undanfarin ár, en niðurstaðan varð á endanum sú að bræðurnir öðluðust aftur stjórn yfir trúfélaginu. Hefur Ágúst Arnar verið í forsvari fyrir það allar götur síðan og fátt hefur verið um svör hvað raunverulega starfsemi félagsins varðar.

Zuism tilkynnti svo í febrúar s.l. að Ágúst Arnar ætlaði að hætta sem forstöðumaður, en það var víst afturkallað, eftir að félagið ákvað að fara í mál við ríkið sökum þess að sóknargjöld yrðu ekki greidd út í ár, samkvæmt frétt Vísis frá því í apríl.

Þar kom fram að Ágúst Arnar ætlaði að halda áfram sem forstöðumaður á meðan að málið yrði rekið fyrir dómstólum. Tilkynning um að hann ætli sér að hætta stendur þó enn óhögguð á vefsíðu Zuism og hefur vefsíða félagsins ekki verið uppfærð síðan þá.

Tugmilljóna eignir hafa safnast upp í félaginu

Í nýjustu ársskýrslu trúfélagsins, sem undirrituð var af Ágústi Arnari á gamlársdag í fyrra og gildir fyrir árið 2018, kemur fram að tekjur félagsins hafi numið rúmum 22 milljónum króna árið 2018 og allar voru þær tilkomnar vegna sóknargjalda frá ríkinu.

Gjöld félagsins eru að sama skapi sögð nema rúmum 16 milljónum á síðasta ári og þar af fóru fjórar milljónir í launagreiðslur. Þetta var í fyrsta sinn sem launagreiðslur voru sérstaklega tilteknar í ársskýrslum trúfélagsins.

Svona lítur bókhald trúfélagsins út samkvæmt bókum þess. Þar hefur …
Svona lítur bókhald trúfélagsins út samkvæmt bókum þess. Þar hefur þó einhverrar ónákvæmni gætt varðandi skráningu tekna, þar sem Fjársýsla ríkisins segir sóknargjöldin nema um 85 milljónum á þessu sama tímabili. mbl.is

Samkvæmt ársskýrslum félagsins síðustu ár, sem blaðamaður hefur fengið fá sýslumannsembættinu á Norðurlandi eystra og rýnt í, hafa tekjur þess vegna sóknargjalda alls numið um 115 milljónum króna á árunum 2016-2018.

Þar gætir þó eflaust einhverrar ónákvæmni í skráningu af hálfu þeirra sem fara með fjárreiður félagsins, því samkvæmt Fjársýslu ríkisins voru útgreidd sóknargjöld til félagsins á þessu tímabili 84,7 milljónir króna.

Samkvæmt ársskýrslunum námu gjöld félagsins á sama tímabili tæpum 32 milljónum króna og því ljóst að miklar eignir hljóta að hafa safnast upp hjá félaginu. Eigna félagsins er fyrst getið á ársskýrslu fyrir árið 2017. Þá var eignastaðan sögð 46,6 milljónir króna.

Á ársskýrslu fyrir árið 2018 segir þó að félagið hafi þegar átt 46,6 milljónir króna eignir árið 2016. Eignir félagsins árið 2017 eru á sama plaggi sagðar hafa verið orðnar 52,2 milljónir króna. Ekkert er sagt um eignastöðu félagsins í árslok 2018 í skýrslunni og hvergi kemur fram hvers eðlis eignir félagsins eru.

Það sem er því vitað með vissu er að trúfélagið á eignir fyrir tugmilljónir og meirihluti sóknargjaldanna hefur þannig safnast fyrir í félaginu. Einhver hluti rekstrarkostnaðarins skýrist sennilega af endurgreiðslu sóknargjalda, en hversu mikið er alveg óljóst, þar sem gagnsæið í því endurgreiðsluferli er ekki til staðar.

Ekki hefur reynst mögulegt fyrir blaðamann að ná tali af Ágústi Arnari til þess að spyrja hann neitt út í stöðu eða starfsemi trúfélagsins við vinnslu þessarar fréttar.

Gallaður lagarammi um trúfélög misnotaður

Inga Auðbjörg K. Straumland er formaður Siðmenntar — félags siðrænna húmanista á Íslandi. Hún segir, í samtali við mbl.is, að hún skilji af hverju fólk hafi skráð sig í söfnuð zúista á sínum tíma. Henni og félögum hennar í Siðmennt hafi þótt tilraunin áhugaverð og ekki talað gegn henni, enda hefur lífsskoðunarfélagið verið gagnrýnt á lagarammann í kringum skráningu í trúfélög. Inga segir hann gallaðan.

„Það er skrítið að setja ramma utan um trúfélög og binda þetta með sóknargjöldunum inn í ríkisbatteríið, frekar en að hugsa bara um þetta sem frjáls félagasamtök, eins og þetta eru í rauninni,“ segir Inga, sem telur að hugmynd upphaflega hópsins sem tók félagið yfir og boðaði endurgreiðslu sóknargjalda „hafi verið einhvers virði“.

Inga Auðbjörg K. Straumland er formaður Siðmenntar.
Inga Auðbjörg K. Straumland er formaður Siðmenntar. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var mjög áhugaverð atlaga að ríkisbákninu, þegar þessi nýi hópur tók við og byrjaði að bjóða sóknargjöld í skiptum fyrir félagsaðild og það er mjög sorglegt að sjá hvernig það hefur þróast, með yfirtöku þessara manna,“ segir Inga.

„Núna finnst mér náttúrlega bara alveg skelfilegt það séu hvað, hátt í 2.000 manns ennþá í þessu félagi og að það sé auðsýnt að það sé ekki eðlilegt fólk þarna í forsvari. Ég skil ekki af hverju ríkisvaldið er ekki búið að stoppa þetta, það hlýtur að vera ljóst að þau séu ekki að sinna þessum lögbundnu hlutverkum, sem eru þau að halda samkomur og athafnir.“

Hún segir að heilt yfir telji Siðmennt það „mjög skrítið“ að ríkið sé að innheimta sóknargjöld og meðhöndla þau og lista yfir trúarskoðanir fólks. Það séu listar sem eiga ekki að vera í höndum ríkisins, nokkurn tímann.

Uppfært: Sóley Rut Magnúsdóttir, sem áður var skráð sem stjórnarmaður í félaginu, hefur komið þeim athugasemdum til mbl.is að hún hafi aldrei verið virk í stjórn félagsins né tekið ákvarðanir á vettvangi stjórnarinnar.

Uppfært: Ranglega sagði í fyrri útgáfu fréttarinnar að bræðurnir hefðu sætt rannsókn saksóknara vegna mála sem tengdust Kickstarter-verkefnum þeirra. Málið sem Einar var síðar dæmdur fyrir tengdist þeim verkefnum ekki með beinum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert