Úr prentsmiðju í frystihús – allt fyrir lyftingar

Útsýnið er glæsilegt úr gamla frystihúsi Síldarvinnslunnar á Neskaupstað sem …
Útsýnið er glæsilegt úr gamla frystihúsi Síldarvinnslunnar á Neskaupstað sem nú hefur verið breytt í æfingaaðstöðu fyrir Lyftingafélag Austurlands. Ljósmynd/Aðsend

Sigrún Harpa Bjarnadóttir stofnaði Lyftingafélag Austurlands fyrir þremur árum, að eigin frumkvæði með aðstoð vina í Reykjavík, en í dag eru félagarnir 142 samtals sem dreifðir eru um Austurland. Stunda þeir lyftingar eða crossfit af kappi ýmist í Neskaupstað, á Reyðarfirði eða á Egilsstöðum.

Nýverið tók félagið í notkun nýtt æfingahúsnæði; gamla frystihúsið á Neskaupstað, sem Síldarvinnslan úthlutaði félaginu. „Við erum að skapa lítið samfélag inni í samfélagi,“ segir Sigrún.  

Sigrún hefur síðustu ár verið búsett á Eskifirði, þar sem hún starfar sem lögfræðingur. Hún kynntist ólympískum lyftingum og kraftlyftingum í gegnum crossfit, sem hún hefur stundað samfleytt í um átta ár, eða frá því að hún flutti til Akureyrar 2010, en hún er einnig með bakgrunn í fótbolta, frjálsum íþróttum og skíðiðkun. 

Þegar hún flutti til Eskifjarðar langaði hana til að leggja meiri áherslu á lyftingar, sem eru góður grunnur að hreysti. „Ég var ekki með neina aðstöðu til að byrja með en fékk lánsbúnað frá Kraftlyftingafélagi Akureyrar,“ segir hún. Fljótlega fékk hún fleiri til liðs við sig og fóru æfingar fram fyrst um sinn í gamla frystihúsinu á Eskifirði en svo í líkamsræktarstöðinni í Neskaupstað, sem hentaði þó ekki vel sökum þrengsla.  

Sigrún Harpa Björnsdóttir, stofnandi Lyftingafélags Austurlands, er virkilega stolt af …
Sigrún Harpa Björnsdóttir, stofnandi Lyftingafélags Austurlands, er virkilega stolt af bæjarbúum, sem hafa margir hverjir lagt sig alla fram við að efla lyftinga- og crossfit-samfélagið á Austurlandi. Ljósmynd/Aðsend

Lyftingar eru engin bóla 

„Ég var að reyna að gera félagið að einhverju,” segir Sigrún, sem leitaði til íþróttafulltrúa Fjarðabyggðar og segist hafa þurft að sannfæra sveitarfélagið um að lyftingar væru engin bóla heldur íþrótt sem stunduð hefði verið úti um allan heim svo áratugum skipti. Lyftingar væru nú komnar til að vera á Austurlandi. 

„Á þessum tíma vorum við fimm í félaginu og voru helstu raddir um hvort við gætum ekki bara verið í ræktinni á svæðinu. Svarið var einfalt, það er ekki hægt. Ef fólk ætlar að æfa ólympískar lyftingar í ræktinni getur það átt í hættu á að slasa bæði sjálft sig og aðra, þar sem þessi íþrótt kallar á mikið pláss,” segir Sigrún.

Eftir samningaviðræður við sveitarfélagið undirritaði hún fyrir hönd félagsins samstarfssamning við Fjarðabyggð sem innihélt meðal annars það skilyrði að hún sýndi fram á að félagsmönnum hefði fjölgað. Það gekk eftir og gott betur en það. Í dag eru þeir rúmlega 140 talsins. Helsta æfingaaðstaða Lyftingafélags Austurlands er í Neskaupstað en að auki hefur félagið aðstöðu innandyra hjá Crossfit Ými á Reyðarfirði og á Egilsstöðum í Crossfit Austur, en Sigrún opnaði einmitt stöðina á Reyðarfirði í vor ásamt félaga sínum. 

Á Egilsstöðum æfa til að mynda þrír helstu keppendur félagsins. Lyftingafélagið heldur uppi barnastarfi fyrir 11-14 ára bæði á Reyðarfirði og í Neskaupstað, og fullt er á æfingar á hvorum stað. Æfingar eru einu sinni í viku og er farið í allar lyftur, ein lyfta á viku og með því grunnþjálfun til styrkingar. 

Gömlu frystihúsi Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur verið breytt í æfingaaðstöðu …
Gömlu frystihúsi Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur verið breytt í æfingaaðstöðu fyrir crossfit-iðkendur og félaga í Lyftingafélagi Austurlands. Ljósmynd/Aðsend

Saga æfingaaðstöðunnar í Neskaupstað er áhugaverð fyrir margar sakir en það eru líklega ekki mörg íþróttafélög sem hafa æfingaaðstöðu bæði í gamalli prentsmiðju og frystihúsi eins og raunin er með Lyftingafélag Austurlands. Félagið fór í samstarf við Karatafélag Austurlands og Hraustan um aðstöðu í gamla prentsmiðjuhúsnæðinu í Neskaupstað sem var mikil búbót, en með auknum iðkendafjölda sprengdi það einnig það húsnæði utan af sér. 

Leitin að hentugu húsnæði hafði staðið í þó nokkurn tíma og hafði Sigrún meðal annars skipulagt fund með Síldarvinnslunni. Sá fundur datt síðan upp fyrir sökum anna, en samhliða þjálfun og lyftingum er Sigrún í fullu starfi hjá Sýslumanninum á Austurlandi. Stuttu seinna hitti Sigrún framkvæmdastjóra fyrirtækisins óvænt á tónleikum í Neskaupstað og þá fór boltinn að rúlla. 

Hreinsuðu upp eftir Baltasar Kormák

Úr varð að lyftingafélagið fékk aðstöðu í gamla frystihúsi Síldarvinnslunnar til umráða og fékk húsnæðið afhent í vor. Vinnan fram undan var mikil, en húsnæðið hefur aðeins fengið að finna fyrir því síðustu ár, þar sem Baltasar Kormákur fékk að kveikja í hluta frystihússins við töku á kvikmyndinni Hafið. 

„Við tók gígantísk samvinna félagsmanna. Þarna voru öskuleifar eftir eldsvoða sem þurfti að þrífa og þarna var mikið geymsludót sem þurfti að flokka, endurvinna eða henda,” segir Sigrún.

Hreinsunarstarfið gekk vel og í september var húsnæðið tekið í notkun og hefur það fengið nafnið Nesheimar. Verkinu er þó ekki lokið, en til stendur að nýta annan hluta húsnæðisins til að útbúa sérstakt æfinga- og lyftingasvæði sem verður sniðið að þeim sem vilja æfa sér.

„Hugmyndin er að þetta verði aðstaða þar sem allt verður til alls, alveg sama hvað fólk er að æfa,“ segir Sigrún. Sérstaða Nesheima byggir ekki síst á því að aðstaðan er opin allan sólarhringinn fyrir félagsmenn og er það líklega einn fárra æfingastaða á landinu sem bjóða upp á slíkt. „Það er svo margt fólk í vaktavinnu á þessu svæði og þetta fyrirkomulag nýtist því vel,” segir Sigrún. 

Risastórt samvinnuverkefni

Sigrún er virkilega stolt af bæjarbúum, sem hafa margir hverjir lagt sig alla fram við að efla lyftinga- og crossfit-samfélagið á Austurlandi. „Þetta er risastórt samvinnuverkefni sem íbúar í Neskaupstað hafa unnið að. Þótt ég hafi komið þessu á koppinn er ég ótrúlega ánægð með að fólk geti nýtt sér þetta til framtíðar. Ég þekki það á eigin skinni hvernig það er að búa langt í burtu úti á landi þar sem lítið framboð er af tómstundum,” segir Sigrún, en hún er ættuð frá Vestfjörðum en hefur búið í Reykjavík, Akureyri og í Noregi svo dæmi séu nefnd.  

Hver sem er getur tekið æfingu í Nesheimum og segir Sigrún það mikið ánægjuefni hversu mikla athygli lyftingafélagið fær. Þá fer tilvikunum fjölgandi þar sem ferðamenn sækjast eftir því að æfa í aðstöðinni. „Í fyrra kom hingað par frá Þýskalandi til að gifta sig og þau æfðu hérna í viku fyrir brúðkaupið, og tel ég mikilvægt að það sé ýmislegt í gangi til að draga fólk að staðnum, bæði til að heimsækja og til að setjast að.“ 

Lyftingar og crossfit hafa náð gífurlegum vinsældum undanfarin ár og spurð hvað veldur nefnir Sigrún fjölbreytileikann og félagsskapinn sem einkennir greinarnar. „Þetta er svo félagslegt,“ segir hún en með stofnun félagsins og stöðvarinnar vildi hún reyna að sporna gegn félagslegri einangrun íbúanna á svæðinu. „Á mínum ömurlegasta punkti í lífinu hélt þetta mér lifandi. Ég fór og fann fyrir umhyggjunni, við erum öll að gera þetta saman og við erum með mismunandi markmið en heildarmarkmiðið er að vera heilbrigð, andlega og líkamlega. Allir verða að muna að allir geta gert eitthvað, ekki gera ekki neitt.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert