Engin krafa um aflífun andanna

Fáskrúðsfjörður í Fjarðabyggð.
Fáskrúðsfjörður í Fjarðabyggð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Aldrei hefur verið gerð krafa af hálfu Fjarðabyggðar um að tæplega 30 endur á Fáskrúðsfirði verði aflífaðar á morgun ef ekki verða gerðar umbætur á þeirra samastað.

Þetta segir Valur Sveinsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Fjarðabyggðar.

Hann segist ekki vita hvaðan umræðan um aflífun andanna komi. Eigandanum hafi einfaldlega verið sagt að hann þyrfti að gera ráðstafanir með að fjarlægja fuglana fyrir morgundaginn.

Aðspurður segist Valur hafa talað við eigandann í gær og hann kvaðst ætla að skoða málið. Endurnar hafast meðal annars við í fjörunni á Fáskrúðsfirði og hafa verið vinsælar á meðal ferðamanna og krakka í bænum.

Með leyfi til haustsins 2017

Sviðsstjórinn bætir við að eigandinn hefði bara verið með leyfi til að vera með endurnar um sumarið 2017 og fram á haust. Eftir það átti hann að fara með þær annað fyrir veturinn. Það hefur aftur á móti ekki gerst og því hafa þær ekki fengið skjól yfir veturinn.

Eigandinn hafði áður verið með endurnar yfir sumartímann og þá fjarlægði hann þær sjálfur um haustið, að sögn Vals.

Spurður hvort yfirvöld muni fjarlægja fuglana á morgun ef eigandinn gerir það ekki sjálfur segir hann að samtal muni eiga sér stað fyrst um sinn. „Við reynum að leysa það í samvinnu“.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert