Greinargerðar að vænta í máli Erlu

Erla Bolladóttir.
Erla Bolladóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Greinargerðar ríkisins í máli Erlu Bolladóttur, eins sakborninga í Guðmundar -og Geirfinnsmálinu, gegn íslenska ríkinu er að vænta fyrir jól. Þetta segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu.

Erla krefst þess að ákvörðun endurupptökunefndar, um að hafna upptöku á máli hennar, verði ógilt. Hún var sakfelld fyrir rangar sakargiftir í málinu, ásamt þeim Kristjáni Viðari Júlíussyni (áður Viðarssyni) og Sævari Ciesi­elski. Í stefnu Erlu eru vinnubrögð endurupptökuefndar m.a. harðlega gagnrýnd, en krafan byggir á því að niðurstaða nefnd­ar­inn­ar fái hvorki staðist stjórn­sýslu­lög, meg­in­regl­ur stjórn­sýslu­rétt­ar né skil­yrði fyr­ir end­urupp­töku mála. Þá hafi grund­vall­ar­rétt­indi henn­ar verið brot­in við meðferð máls­ins. 

Ragnar Aðalsteinsson lögmaður Erlu.
Ragnar Aðalsteinsson lögmaður Erlu.

Mál Erlu var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun þessa mánaðar. 

Ragnar er einnig lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, annars sakbornings í málinu. Mál Guðjóns gegn íslenska ríkinu var tekið fyrir í síðustu viku og var frestað fram í janúar vegna gagnaöflunar. Guðjón krefst 1,3 milljarða greiðslu bóta frá ríkinu, annars vegar vegna miska sem hann varð fyrir vegna frelsissviptingar í 792 daga, hins vegar vegna atvinnumissis sem hann varð fyrir í tengslum við málið.

Ragnar segist búast við því að frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um heimild til greiðslu bóta vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu verði samþykkt á Alþingi í þessari viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert