Íslenskur aðstoðarrektor í Kabúl

Árni Arnþórsson starfar sem aðstoðarrektor og deildarstjóri við háskóla í …
Árni Arnþórsson starfar sem aðstoðarrektor og deildarstjóri við háskóla í Kabúl. Ljósmynd/Aðsend

Árni Arnþórsson, aðstoðarrektor American University of Afghanistan í Kabúl, segir ekkert þýða að hugsa um hræðslu þrátt fyrir að tveimur kennurum við háskólann hafi verið rænt af talibönum fyrir þremur árum. Þeim var nýlega sleppt úr haldi í fangaskiptum á milli stjórnvalda og talibana.

„Þú getur ekkert ákveðið að vera á svona stað ef þú ætlar að lifa í hræðslu. Maður verður að taka þessu á réttan hátt og hugsa ekkert um svoleiðis hluti,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Mennirnir tveir eru báðir enskukennarar frá Bandaríkjunum og Ástralíu og kenndu við endurmenntunardeild skólans. Annar hafði starfað þar í um tvö ár á meðan hinn hafði aðeins verið þar í fimm daga þegar þeir voru numdir á brott fyrir utan skólann í ágúst árið 2016. Tveimur vikum síðar gerðu talibanar árás á háskólann þar sem 15 manns dóu og upp undir 100 manns særðust.

„Skólinn lokaði í dálítinn tíma eftir það, augljóslega, en eftir það voru settar um 20 milljónir dollara [um 2,5 milljarðar króna] í að tryggja öryggi skólans, sem var greinilega ekki alveg nóg á þessum tíma,“ segir Árni, sem einnig er deildarstjóri viðskiptadeildar. Hann tekur fram að ekkert álíka hafi gerst síðan þá enda séu múrveggirnir í kringum skólann og skólalóðina orðnir hærri en áður. Tvöfalt öryggiskerfi er hjá öllum hliðum og er leitað á fólki þegar það fer þar í gegn. Hundar sjá meðal annars um það.

Árni Arnþórsson á háskólasvæðinu.
Árni Arnþórsson á háskólasvæðinu. Ljósmynd/Aðsend

Í brynvörðum bílum og með lífverði

Spurður segist hann aldrei upplifa sig í hættu á háskólasvæðinu, þar sem hann býr einnig. „Hættan er aðallega fólgin í því þegar við förum út. Ég þarf að fara ansi oft í sendiráð og til ráðuneyta og annað þess háttar. Eins þegar við förum á flugvöllinn, þá er ákveðin hætta. Við erum í brynvörðum bílum og með lífverði og allt það,“ greinir hann frá.

Ekki kemur til greina að vera á gangi fyrir utan háskólasvæðið. Það gerir enginn af erlendum starfsmönnum skólans vegna öryggisreglna, enda hafa talibanar sagt það skýrt og skorinort að þeir vilji ekki hafa þá í landinu. Annaðhvort vilja þeir drepa þá eða ræna þeim til að geta losað einhverja af sínum mönnum sem eru í fangelsi. Með mannránunum, sem eru tíð í landinu, fjármagna þeir einnig hluta af sinni starfsemi.

Heldurðu að kennararnir muni snúa aftur í skólann?

„Ef þú lest um gísla og hvað gerist með þetta fólk kemur einn af hverjum tuttugu til baka en við höfum alltaf stutt þá og þeir vita að þeir eru velkomnir til baka,“ segir hann og bætir við að aðalatriðið fyrir háskólann sé að þeir séu á leiðinni til síns heima til fjölskyldu og vina.

Sprengingar hluti af daglegu lífi 

Árni segir Kabúl vera stóra borg og að sprengingar verði þar reglulega. „Það kemur fyrir að maður heyrir sprengingar, það kemur fyrir að maður heyrir í byssukúlum en ekkert sem hefur áhrif á mann þannig. Þetta er bara hluti af lífinu hérna.“

Ein sprenging varð um 400 til 500 metra frá háskólasvæðinu en hann bendir á að um tíu metra háir múrveggir umkringi svæðið. Það sé stórt og því finni hann lítið sem ekkert fyrir óróanum í borginni. Hann er einn af um sextíu útlendingum sem starfa við skólann og búa á háskólasvæðinu. Þeir koma frá sextán löndum, þar á meðal Bandaríkjunum, Kanada og Spáni.

Árni hefur starfað við skólann síðan í ágúst í fyrra.
Árni hefur starfað við skólann síðan í ágúst í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

„Að mörgu leyti stórkostlegt“

Árni er með doktorsgráðu í markaðsfræðum frá Bandaríkjunum og hefur búið erlendis meira og minna frá árinu 1984, lengst af í Bandaríkjunum. Einnig hefur hann búið í Sviss, Perú, Kósóvó, á Cayman-eyjum og í Mexíkó. Í höfuðborginni Kabúl hefur hann búið síðan í ágúst í fyrra. Fyrrverandi yfirmaður Árna, sem var í Afganistan og hafði áður unnið með honum, bauð honum starf í landinu. „Hann hafði samband við mig og sannfærði mig um að koma hérna til þess að rífa upp viðskiptadeildina og gera góða hluti fyrir þetta fólk. Það er ákvörðun sem ég sé ekki eftir því það er að mörgu leyti stórkostlegt að vinna hér og geta haft þau áhrif sem maður hefur hér á hverjum degi,“ segir hann.

Mikilsmetinn skóli í bandarískri mynd

Spurður nánar út í American University of Afghanistan segir hann um venjulegan háskóla að ræða í bandarískri mynd enda er hann að mestu rekinn með bandarísku fjármagni. Hann var stofnaður árið 2006 gagngert til að veita konum tækifæri til að öðlast háskólamenntun. Í BA-náminu eru um 820 nemendur, þar af 45% konur, og í MBA-náminu eru konur um 20% af nemendunum, sem eru um 75 talsins.

Skólinn er mjög mikils metinn í Afganistan. Hann er talinn sá besti fyrir ungt fólk og góður undirbúningur fyrir atvinnulífið þar sem eftirsóttar stöður bíða útskriftarnema, að sögn Árna. „Það er verið að gera mjög góða hluti hér og mikilvæga. Það má segja hvað mig varðar að þetta er líklega mikilvægasta starf sem ég mun nokkurn tímann hafa eða hef haft vegna þess að það sem við erum að gera er að hafa áhrif strax,“ segir hann, eðlilega stoltur af starfinu í landinu.

mbl.is