Ólgan bitnaði ekki á sjúklingum

Þrátt fyrir mikla ólgu á meðal starfsmanna bitnaði það ekki …
Þrátt fyrir mikla ólgu á meðal starfsmanna bitnaði það ekki á sjúklingum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margir samverkandi þættir sem ná yfir nokkra mánaða skeið stuðluðu að því hve mikil óánægja blossaði upp á Reykjalundi með tilheyrandi uppsögnum lækna þar síðustu mánuði. Þetta kemur fram í hlutaúttekt embættis landlæknis á Reykjalundi endurhæfingarmiðstöð SÍBS og var birt á vef landlæknis í dag

Óánægja starfsfólks beindist að eftirtöldum þáttum: skipulagsbreytingum sem unnið var að á þessu ári, kynningu/innleiðingu á því, aðkomu ráðgjafarfyrirtækis að stefnumótunarvinnu, að ekki var auglýst eftir faglegum leiðtoga/stjórnanda í starf framkvæmdastjóra endurhæfingarsviðs, framganga stjórnar SÍBS, ákveðin atriði í framkomu nýráðinna stjórnenda, ákveðin atriði í framkomu ákveðins starfsfólks gagnvart nýráðnum stjórnendum og fleira. 

Kornið sem fylltri mælinn hjá starfsfólki var þegar stjórn SÍBS sagði upp fyrrverandi forstjóra Reykjalundar sem og framkvæmdastjóra lækninga, eins og fram hefur komið og þeir „umsvifalaust leiddir út eins og glæpamenn“ eins og segir í skýrslunni. Starfsfólk gerði einnig athugasemdir við framkomu bæði nýráðinna stjórnenda sem og framkomu stjórnarformanns SÍBS. Hann hafi hvorki komið fram „af lipurð né lítillæti“.   

Þrátt fyrir mikla ólgu á meðal starfsmanna bitnaði það ekki á sjúklingum, að því er fram kemur í viðtölum við sjúklinga sem rætt var við. Þeir báru allir  starfsfólki vel söguna og hrósuðu því fyrir að „veita frábæra þjónustu á augljóslega erfiðum tímum. Helstu styrkleikar Reykjalundar voru að mati viðmælanda mikil fagleg þekking, einstaklingsmiðuð þjónusta, mikið og skilvirkt upplýsingaflæði og gott aðgengi að starfsfólki.“

Fjölmargar ábendingar um úrbætur eru í úttektinni. Bent er á að vinna þurfi úr þeirri vanlíðan sem hefur skapast hjá starfsfólki og hægt væri að nota samskiptasáttmála líkt og Landspítali hefur gert. Tryggja að stjórnir frjálsra félagasamtaka, í þessu tilviki SÍBS, sem eru á samningi við SÍ um veitingu heilbrigðisþjónustu hlutist ekki til um faglegan rekstur slíkra stofnana. Hægt væri að skilyrða slíkt í samningi við SÍ.

Endurskoða skipurit í samvinnu við starfsfólk stofnunarinnar, gera það skýrara og tengja það við hlutverk stofnunar og framtíðarsýn, gera verkefnaáætlun er varðar breytingar á skipuriti, kynna áætlun og hafa samþykktar- og innleiðingarferli skýrt.    

Skýrslan var unnin að frumkvæði embættis landlæknis en í samráði við heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands (SÍ). Tilefni hennar var ágreiningur milli stjórnar SÍBS og stjórnenda Reykjalundar annars vegar og ákveðins hóps starfsfólks á Reykjalundi hins vegar og sú atburðarás sem átti sér stað í kjölfarið.

Í úttektinni voru tekin viðtöl við 10 sjúklinga úr öllum meðferðarteymum stofnunarinnar. Sjúklingarnir voru valdir af handahófi af úttektarteymi embættisins og höfðu flestir þeirra verið til meðferðar á Reykjalundi um nokkurn tíma. Viðtöl voru tekin við 20 starfsmenn úr öllum meðferðarteymum á Reykjalundi og úr öllum heilbrigðisstéttum sem á stofnuninni starfa. Þessir viðmælendur voru sömuleiðis valdir af handahófi af úttektarteyminu. Auk þess var rætt við gæðastjóra stofnunarinnar. Einnig fengust ýmsar upplýsingar annars staðar frá. Þá voru skráð gögn er varða Reykjalund hjá embættinu skoðuð, svo sem atvikaskráning. 

mbl.is

Bloggað um fréttina