Þurftu að slökkva á báðum ljósbogaofnum PCC

Stoðkerfi ljósbogaofna PCC hætti að virka eðlilega og því þurfti …
Stoðkerfi ljósbogaofna PCC hætti að virka eðlilega og því þurfti að slökkva á ofnunum.

Slökkva þurfti á báðum ljósbogaofnum kísilverksmiðju PCC á Bakka, en starfsmenn fyrirtækisins hafa frá því í síðustu viku átt í vandræðum með búnað í verksmiðjunni.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu PCC , þar sem segir að stoðkerfi ofnanna hafi hætt að virka almennilega.

Í kjölfarið þurfti að slökkva  Birtu, sem er fyrri ljósbogaofninn og samtímis því varð framleiðslan í Boga (ofni 2) óstöðug vegna ójafnvægis í kerfinu og þurfti því einnig að slökkva á honum.

„Þegar slökkt var á ofnunum þá lækkaði hitastigið í rykhreinsivirkinu og við það myndaðist raki sem leiddi til þess að kísilrykið varð klístrugt og stíflaði kerfið,“ segir í færslunni.

Til að koma í veg fyrir að reykur safnaðist fyrir í verksmiðjunni hafi svo þurft að opna neyðarskorsteina, en við það getur reyk lagt frá verksmiðjunni.

Birta er hins vegar nú komin á fullt afl og er framleiðsla ofnsins sögð vera eðlileg. Gert er svo ráð fyrir að Bogi verði gangsettur aftur síðdegis á morgun.

mbl.is