Hefur þú áhuga á háskólanámi?

Stúdentar hafa tekið höndum saman um að aðstoða hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi sem hafa áhuga á að sækja um háskólanám. Er flóttafólki og hælisleitendum boðið upp á sérsniðna ráðgjöf og verður verkefnið kynnt á morgun, miðvikudag, í svonefndu umsóknarkaffi.

Jóhanna Ásgeirsdóttir, alþjóðafulltrúi Landssamtaka íslenskra stúdenta, segir að Student Refugees Iceland sé stúdentarekið framtak með það að markmiði að auka aðgengi hælisleitenda og flóttafólks á Íslandi að háskólamenntun. 

Hún segir að verkefnið hafi orðið til í samstarfi við Landssamtök danskra stúdenta, DSF, Danske Studerendes Fællesråd. Landssamtök íslenskra stúdenta eru aðilar að margs konar alþjóðlegu samstarfi, þar á meðal með öðrum sambærilegum samtökum annars staðar á Norðurlöndunum, Nordisk Ordförande Möte, og í Evrópu og þar kynntust fulltrúar íslenskra stúdenta danska verkefninu og ákváðu að kanna með grundvöll fyrir slíku verkefni á Íslandi.

Verkefnið er í höndum alþjóðafulltrúa og jafnréttisfulltrúa hér á Íslandi en að sögn Jóhönnu var það forveri hennar í starfi sem kynnti sér verkefnið Student Refugees í Danmörku en þar hefur það verið í gangi frá 2015.

Studenterhuset hefur tekið við þessu verkefni i Danmörku og reka þau vefsíðuna studentrefugees.dk, og halda umsóknarkaffihús líkt og verður gert hér á morgun. Þau hafa einnig komið af stað „buddy“-verkefni, þar sem flóttafólk í háskólanámi fær úthlutað félaga, öðrum háskólanema, til halds og traust á námsferlinum, segir Jóhanna.

Landsamtök íslenskra stúdenta fengu styrk frá Sambandi evrópskra námsmanna (European Student Union) sem eru með sérstakan sjóð, Together Moving Forward, sem ætlaður er flóttafólki og aðgengi þess að menntun. 

Styrkurinn gerði okkur kleift að búa til vefsíðu um menntakerfið á Íslandi og aðgangskröfur þess,“ segir Jóhanna. Eins komu hingað til lands fulltrúar Studenterhuset í haust sem þjálfuðu þau hjá samtökunum sem og sjálfboðaliða í að taka á móti flóttafólki og hælisleitendum og hvernig hægt er að styðja þau í umsóknarferlinu.

Vefur Student Refugees á Íslandi

Að sögn Jóhönnu eru samtökin að horfa til þeirra sem hafa hug á háskólanámi en Samband íslenskra framhaldsskólanema sé að skoða svipuð úrræði fyrir framhaldsskólanema. „Við ætlum að vinna náið saman að þessum verkefnum. Meðal annars hvernig hægt er að brúa bilið á milli framhaldsskóla og háskóla,“ segir Jóhanna en eitt af því sem haft var til hliðsjónar er nýleg skýrsla Rauða krossins varðandi menntamál flóttafólks á Íslandi.

Íslenskt menntakerfi skortir úrræði fyrir nemendur með flóttamannabakgrunn, úrræði sem myndu gera þeim kleift að ljúka námi á því sviði sem hugur þeirra stendur til. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Rauða krossins um aðgengi flóttafólks að menntun á Íslandi frá því fyrr á þessu ári.

Þar kemur fram að af 82 flóttamönnum sem tóku þátt í þarfagreiningu Rauða krossins í Reykjavík eru einungis 5% í námi, en 43% eiga í erfiðleikum með að komast í nám. Meðalaldur þeirra sem hafa áhuga á að mennta sig er 26 ár.

Sjálfboðaliðar í verkefninu Student Refugees.
Sjálfboðaliðar í verkefninu Student Refugees. Ljósmynd aðsend

Í skýrslunni er farið yfir möguleika og hindranir sem flóttafólk stendur frammi varðandi nám á framhaldsskóla- og háskólastigi á Íslandi. 

Skortur á tungumálaþjálfun er ein þeirra hindrana sem flóttamenn standa frammi fyrir, auk skorts á tiltækum og aðgengilegum upplýsingum um menntunarmöguleika. Fjárhagslega þröng staða og erfiðleikar með að fá fyrra nám metið koma einnig í veg fyrir að flóttafólk geti menntað sig.

Þrátt fyrir að í lögum um framhaldsskóla sé kveðið á um móttökuáætlanir fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku, sýnir könnun meðal framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu (og nágrenni) að margir þeirra hafa ekki gert ráðstafanir varðandi móttöku og stuðning við þessa nemendur.

Líkt og fram kemur í skýrslunni er staðan svipuð víða því samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum hefur aðeins 1% flóttamanna á háskólaaldri aðgang að háskólanámi á meðan hlutfallið er 36% almennt séð.

Í skýrslu Rauða krossins kemur fram að eitt af því sem flóttafólk nefnir er að því sé ætlað að hefja nám á öðru stigi en bakgrunnur þeirra segir til um. Oft er þetta vegna þess að upplýsingar skortir auk þess að íslensku- og enskukunnátta þeirra er ekki nægjanleg.

Mælt er með því að íslensk stjórnvöld og menntastofnanir bæti aðgengi flóttamanna að menntakerfi landsins, að þeir stundi nám með innfæddum eftir að hafa lagt stund á nám í sérstökum bekkjum. Með þessu sé hægt að gera þeim auðveldara fyrir með framhaldið.

Bjóða þurfi upp á sérstakar leiðir sem miði að þörfum þeirra í framhaldsskólum sem og háskólum. Þeir þurfi sérsniðnar lausnir og það getur þýtt að þjálfa þurfi starfsfólk menntastofnana sérstaklega.

Flóttafólk í framhaldsskólum eigi að njóta fjárhagslegs stuðnings frá sveitarfélögum eða stjórnvöldum allt til loka náms. Þetta á líka að gilda um þá sem hafa lokið framhaldsnámi í heimalandinu en vegna stöðu sinnar geta þeir ekki stundað nám á því stigi, segir meðal annars í skýrslunni sem hægt er að lesa hér. 

Umsóknarkaffið fyrir flóttafólk og hælisleitendur verður í Norræna húsinu milli 16 og 18 og er það fyrsti viðburðurinn af mörgum fyrir þennan hóp að sögn Jóhönnu því þau vilja koma af stað reglulegu opnu húsi, aðra hverja viku eða einu sinni í mánuði, segir hún. 

Facebook-síða Student Refuees á Íslandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert