Kennsl borin á einn árásarmannanna

Að minnsta kosti þrír menn réðust á dyraverðina.
Að minnsta kosti þrír menn réðust á dyraverðina. mbl.is/​Hari

Búið er að bera kennsl á einn af mönnunum sem réðust á þrjá dyraverði á skemmtistaðnum Sólon um síðustu helgi.

Nafn mannsins kom eftir ábendingu frá lögreglumanni. Að sögn Guðmundar Páls Jónssonar, lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, réðust að minnsta kosti þrír menn á dyraverðina. Hann segir að rannsókn málsins miði vel áfram og klárist fljótlega ef næst í manninn sem bent var á. Talið er að árásarmennirnir séu erlendir.

Skemmtistaðurinn Sólon.
Skemmtistaðurinn Sólon. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

Myndefni frá einstaklingum og Sólon

Lögreglan hefur skoðað myndefni sem hefur borist vegna árásarinnar, bæði frá einstaklingum sem höfðu tekið upp efni á símann sinn og úr eftirlitsmyndavélum sem eru inni á skemmtistaðnum og fyrir utan hann.

Jafnframt er búið að taka skýrslu af öllum þremur dyravörðunum.

Spurður út í líðan dyravarðanna segir Guðmundur Páll að sá sem fluttur var á slysadeild eftir að sparkað hafði verið í höfuð hans virðist hafa sloppið tiltölulega vel „miðað við hvað árásin var heiftarleg“.

mbl.is