Rannsókn á mansalsmáli að ljúka

Lögreglan á Suðurnesjum.
Lögreglan á Suðurnesjum. mbl.is/Sigurður Bogi

Rannsókn á máli karlmanns frá Pakistan sem hefur verið ákærður í mjög umfangsmiklu mansalsmáli er að ljúka. 

Þetta segir Eiríkur Ásgeirsson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Hann bætir við að fjögurra manna hópur fái frið til að sinna eingöngu þessu máli, sem kom upp fyrir rúmu ári síðan.

Eftir að rannsókninni lýkur, á næstu dögum eða eftir örfáar vikur, fer málið til ákærusviðs lögreglunnar sem metur hvort það fer til héraðssaksóknara.

Ekki er búið að ákæra fleiri í málinu en talsverður fjöldi hefur stöðu sakbornings. RÚV greindi frá því að þeir væru fimmtán talsins og að þeir hefðu starfað hjá ýmsum fyrirtækjum í Reykjavík. Einnig kom fram að fimmtíu milljónir króna hefðu verið fluttar úr landi í tengslum við málið. Maðurinn sem er ákærður kom til landsins fyrir rúmu ári síðan og í framhaldinu sótti hópur manna hér um hæli sem tengdist honum. 

Húsleit var gerð á sínum tíma á Snorrabraut í Reykjavík þar sem fjórtán menn bjuggu við erfiðar aðstæður. Eiríkur segir að margir hafi búið saman í herbergi og aðstæðurnar hefðu ekki verið „eins og við eigum að venjast“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert