Ætlar ekki að halla sér upp að neinum flokki

Andrés Ingi Jónsson, ætlar að starfa utan flokka á Alþingi …
Andrés Ingi Jónsson, ætlar að starfa utan flokka á Alþingi á kjörtímabilinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég komst ekki að þessari ákvörðun einn, tveir og þrír,“ sagði Andrés Ingi Jóns­son þingmaður í Kastljósþætti kvöldsins um ákvörðun sína að segja sig úr þing­flokki Vinstri hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs fyrr í dag. 

Ákvörðunin byggðist á samblandi af ágreiningi um málefni og samstaf í ríkisstjórnarflokkunum VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Í upphafi kjör­tíma­bils­ins núverandi ríkisstjórnar samþykkti Andrés ekki stjórn­ar­sam­starfið. Slíkt hið sama gerði Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður VG en hún vildi ekki tjá sig um sína stöðu þegar eftir því var leitaði í dag.  

Andrés sagði að flokkurinn hafi ekki náð nógu mörgum málum í gegn við gerð ríkissáttmálans og því hafi hann tekið þessa ákvörðun á sínum tíma. Núna þegar hann hefði litið um öxl sá hann að þingflokkurinn hafi ekki náð að „vinna sig í gegnum það“ og því hafi hann ákveðið að taka þessa ákvörðun í dag. 

Samherjamálið hafi minnt hann á hvar Sjálfstæðisflokkurinn stæði en vildi ekki meina að það væri helsta ástæðan fyrir úrsögn sinni úr þingflokknum. Hins vegar hafi á þessum tímapunkti verið komið að „þolmörkum“ hans gagnvart stjórnarsamstarfinu. Hann tók fram að eftir að Samherjamálið kom upp hafi verið slegið „Íslandsmet í hraða á aðgerðum“ en deila mætti um hversu metnaðarfullar þær væru. Þessi vinnubrögð væru ekki í anda Sjálfstæðisflokks.  

Umhverfis-, loftslags- og útlendingamál vógu þungt í ákvörðun hans. Hann sagði að ekki hefði nægilega vel gengið að ná fram áherslumálum VG í gegn í þessum málaflokkum. Hann taldi m.a. umhverfisráðherra ekki með nægileg verkfæri til að hrinda í gegn ýmsum málum því starfið væri nátengt ákvörðunum fjármálaráðherra.   

Ákvörðunin kom Brynjari ekki á óvart 

Andrés hyggst starfa áfram utanflokka á þingi. „Ég ætla ekki að halla mér upp að einum flokk frekar en öðrum. Ég ætla að reyna að standa fyrir það sem ég var kosinn til að gera,“ segir hann spurður um framtíðina. 

Ákvörðun Andrésar kom Brynjari Níelssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks,  ekki sérstaklega á óvart en hann var einnig viðmælandi í Kastljósþætti kvöldsins. Hann hafði ekki áhyggjur af stöðu meirihlutans á Alþingi. „Nei, ég hef engar áhyggjur. Þessu mátti alltaf búast við og er rökrétt afleiðing af því að menn hverfi úr þingflokknum,“ sagði hann og bætti við að hann skildi ekki af hverju Andrés væri ekki löngu búinn að þessu. 

Brynjar viðurkenndi að ríkisstjórnarflokkarnir væri ekki alltaf sammála en samstarf þýddi málamiðlanir. Samstarfið gengi „þokkalega, menn hafa staðið sig heilt yfir vel,“ sagði Brynjar.  

mbl.is