Engin tilviljun að Samherji valdi DNB

Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu.
Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu. Skjáskot/Kveikur

Gott orðspor Noregs á alþjóðavísu er ástæða þess að Samherji valdi að vera í viðskiptum við norska bankann DNB vegna umsvifa sinna í Namibíu. Þetta segir Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu, sem steig fram í fjölmiðlum og lýsti meintum brotum fyrirtækisins og kom miklum fjölda gagna um starfsemi Samherja í Namibíu til uppljóstrunarsíðunnar WikiLeaks.

Jóhannes lætur þessi orð falla í viðtali við norska dagblaðið Aftenposten. Þar segist hann reiðubúinn til að taka út sína refsingu fyrir sinn þátt í meintum brotum. „En núna sef ég vel á næturnar,“ segir hann.

„Einkennilegt“ að spyrja ekki fleiri spurninga

Hann segir í viðtalinu að norskir bankareikningar hafi verið snjöll leið til að stunda peningaþvætti. „Þegar fé er komið inn í norska bankakerfið er færri spurninga spurt þegar verið er að færa fé á milli reikninga vegna þess að orðspor Noregs er gott. Fáir spyrja hvaðan peningarnir koma,“ segir Jóhannes sem segir það „einkennilegt“ að DNB hafi ekki spurt fleiri spurninga. „Því að þetta eru svo miklir fjármunir,“ segir Jóhannes.

„Ég gerði allt sem ég þurfti“

Í viðtalinu við Aftenposten segist Jóhannes hafa hrifist með þeirri menningu sem ríkti í fyrirtækinu. „Ég gerði allt sem ég þurfti til að tryggja Samherja makrílkvóta. Skilaboðin frá Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra voru að greiða skyldi mútur ef það væri nauðsynlegt til að fá meiri kvóta fyrir fyrirtækið,“ segir Jóhannes. „Það sem Samherji gerði var rangt, en ég get ekki sagt að ég hafi reynt að breyta því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert