Fyrrverandi saksóknari rannsakar Samherja

Elisabeth Roscher er lögmaður og einn eigenda lögmannsstofunnar Wikborg Rein …
Elisabeth Roscher er lögmaður og einn eigenda lögmannsstofunnar Wikborg Rein í Noregi, sem vinnur nú að rannsókn á Samherjamálinu fyrir Samherja. Hún var áður saksóknari hjá Økokrim, efnahags- og umhverfisglæpadeild norsku lögreglunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Norska lögmannsstofan Wikborg Rein rannsakar nú starfsemi Samherja í Namibíu og allt sem henni tengist innan samstæðu Samherja, að beiðni sjávarútvegsfyrirtækisins. Elisabeth Roscher, lögmaður og einn eigenda Wikborg Rein, segir í samtali við mbl.is að markmiðið sé að Samherji fái í hendur allar þær staðreyndir málsins sem hægt verði að sannreyna, en samhliða er starfsemi Samherja til rannsóknar í Namibíu og hérlendis, bæði hjá embættum héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra. Samherji hefur lofað því að niðurstöður Wikborg Rein verði gerðar öllum aðgengilegar að rannsókn lokinni.

„Í þeirri rann­sókn verður ekk­ert und­an­skilið og mun­um við upp­lýsa um niður­stöður henn­ar þegar þær liggja fyr­ir,“ sagði í yfirlýsingu Samherja, sem gefin var út skömmu eftir að þáttur Kveiks fór í loftið fyrir röskum tveimur vikum.

Roscher var stödd á landinu í gær, að eigin sögn til að eiga fundi sem tengjast rannsókninni. Blaðamaður hitti hana á Hótel Canopy í miðborginni og byrjaði samtalið á að spyrja af hverju hún hefði viljað koma fram í íslenskum fjölmiðlum, þar sem það var ekki að frumkvæði mbl.is sem viðtalið átti sér stað, heldur bauð Roscher upp á viðtal ef áhugi væri fyrir.

Hún svaraði því til að starfsmenn Wikborg Rein og Samherja hefðu fengið á tilfinninguna að það væru einhverjar spurningar varðandi Wikborg Rein og rannsóknina á Samherja sem fjölmiðlar og fólk hér á landi vildu fá svör við. Lögmannsstofan vildi glöð svara þeim spurningum og útskýra rannsóknina, en hér á landi hefur borið á tortryggni í garð þess að stórfyrirtækið, sem ásakað er um glæpsamlega háttsemi sem studd er miklu magni gagna, hafi ráðið sér lögmannsstofu til þess að rannsaka eigin starfsemi.

Roscher segir að Samherji hafi haft samband við Wikborg Rein fyrir um þremur vikum, eða viku áður en umfjöllun um málefni fyrirtækisins fór í loftið hjá Kveik, Stundinni og WikiLeaks. Þá hafi farið af stað samræður á milli Samherja og Wikborg Rein um hvernig skyldi haga rannsókninni, sem hófst síðan formlega fyrir um tveimur vikum, með því að gera yfirlit yfir þær ásakanir og staðreyndir sem þegar væru fram komnar í málinu og gera svo rannsóknaráætlun um hvað þyrfti að gera til að sannreyna staðreyndir málsins.

Áður en Roscher færði sig yfir í einkageirann árið 2011 hafði hún starfað í tæpan áratug hún sem saksóknari hjá Økokrim, efnahags- og umhverfisglæpadeild norsku lögreglunnar, sem annast einnig saksókn í slíkum málum. Áður hafði hún verið aðallögfræðingur norska samkeppniseftirlitsins á árunum 2000—2002. Hún hefur því samanburð á því hvernig það er að rannsaka glæpsamlega starfsemi fyrirtækja í því skyni að undirbyggja sakamál gegn þeim og því að rannsaka mál eins og Wikborg Rein gerir nú fyrir Samherja, til þess að gera fyrirtækinu allar staðreyndir málsins ljósar. Hið síðarnefnda kallar Roscher „staðreyndaleitarrannsókn“ (e. fact finding investigation).

„Við erum að skoða allt sem tengist starfseminni í Namibíu, …
„Við erum að skoða allt sem tengist starfseminni í Namibíu, greiðslurnar sem inntar voru af hendi og þá samninga sem liggja þeim að baki,“ segir Roscher. mbl.is/Árni Sæberg

„Þessi tegund af fyrirtækjarannsóknum, einkarannsóknum, er nokkuð sem hefur þróast í Noregi og orðið algengara á síðustu 10-15 árum,“ segir hún, færst hafi í aukana að fyrirtæki fái lögfræðistofur eins og hennar eigin til þess að rannsaka sig þegar þau standa frammi fyrir ásökunum, grunsemdum eða hafi einhverja aðra ástæðu til þess að láta skoða sín mál. Roscher segir að gjarnan vinni lögmannsstofur á borð við Wikborg Rein slíkar rannsóknir á þverfaglegan hátt í samstarfi við endurskoðendur og fyrirtæki sem sérhæfi sig í því að vinna með stór gagnasöfn.

„Við höfum gert svipaðar rannsóknir [og á Samherja nú], en þær eru mismunandi. Sumar eru smáar í sniðum heima í Noregi og aðrar á alþjóðlegum fyrirtækjum sem snerta mismunandi lögsögur og ná þvert á landamæri. Við erum einnig með rammasamning við norska utanríkisráðuneytið um að hjálpa því að framkvæma rannsóknir á alþjóðavísu,“ segir Roscher.

Skoða Samherja í Namibíu frá 2011-2019

Eins og áður var nefnt setti Samherji sig í samband við Wikborg Rein viku áður en umfjöllun fjölmiðla um fyrirtækið fór af stað og þar voru línur lagðar um hvað lögmannsstofan ætti að rannsaka.

„Við erum að aðstoða Samherja við að gera innanhússrannsókn varðandi starfsemi þeirra í Namibíu og hvað var verið að gera í dótturfélögum fyrirtækisins í Namibíu frá 2011 til 2019, svo þetta er ansi langt tímabil. Í brennidepli rannsóknarinnar er stofnun og eftirfylgni starfseminnar í Namibíu, þar á meðal öflun aflaheimilda og notkun þeirra, augljóslega, og greiðslur sem reiddar voru af hendi í því sambandi. Tilgangurinn,“ segir Roscher, „er að leitast eftir því að skýra allar staðreyndir, hlutlægar staðreyndir, sem skipta máli hvað varðar löggjöf gegn spillingu, peningaþvætti og fleiri svipuðum lagaákvæðum.“

Uppljóstranir um meint brot Samherja í Namibíu hafa vakið hörð …
Uppljóstranir um meint brot Samherja í Namibíu hafa vakið hörð viðbrögð íslensks almennings. Frá mótmælum á Austurvelli um liðna helgi. mbl.is/Eggert

Roscher segir aðspurð að rannsókn Wikborg Rein nái til allra þátta starfsemi Samherja sem tengist starfseminni í Namibíu. Þannig komi félög Samherja á Kýpur og víðar við sögu í málinu. „Við erum að skoða allt sem tengist starfseminni í Namibíu, greiðslurnar sem inntar voru af hendi og þá samninga sem liggja þeim að baki,“ segir Roscher.

Opinberun niðurstöðunnar í höndum Samherja

Roscher útskýrir nánar hlutverk Wikborg Rein og það hvernig unnið verði með niðurstöðuna úr rannsókn þeirra. Í svörum hennar við spurningum blaðamanns kemur fram að það hvort og hvernig Samherji kjósi að opinbera niðurstöðuna sé alfarið í höndum fyrirtækisins.

„Við munum safna saman staðreyndunum, meta þær og senda niðurstöðuna til fyrirtækisins. Samherji hefur gefið út að allar niðurstöður sem skipti máli muni fara áfram til opinberra yfirvalda sem láta sig niðurstöðurnar varða, að það verði algjörlega opið og gagnsætt, auk þess sem fyrirtækið hefur gefið út að niðurstöðurnar verði gerðar opinberar þegar það á við [e. in due course],“ segir Roscher.

Átta til tólf manns að störfum sem stendur

Roscher segir enn fremur að fari það svo að opinberar rannsóknir verði enn í gangi hér á landi eða í Namibíu þegar niðurstöður rannsóknar Wikborg Rein liggi fyrir „verði að sjálfsögðu að hafa samband við yfirvöld áður en nokkuð verði gert opinbert, þar sem í reynd sé nánast um tvær eða fleiri samhliða rannsóknir að ræða, svo að segja.“

Spurð nánar í þetta, hví það sé sjálfsagt að samræming (e. coordination) sé á milli rannsóknarteymis Wikborg Rein annars vegar og yfirvalda sem stunda sakamálarannsóknir hins vegar, segir Roscher að það sé mikilvægt að rannsókn Wikborg Rein sé framkvæmd með þeim hætti að hún trufli ekki sakamálarannsókn á sömu efnisatriðum.

„Yfirvöld deila auðvitað ekki öllu með einkaaðilum, en þau gætu hugsanlega sagt, „Nú erum við að plana eitthvað, gætuð þið beðið?“ og öfugt. Við höfum reglulega orðið þess áskynja að það sé mjög nytsamlegt að hafa slíka samræmingu með yfirvöldum. Einnig ef við finnum eitthvað í staðreyndaleit okkar sem við teljum að gæti skipt yfirvöld máli, gætum við deilt því með þeim. Það er tilgangurinn,“ segir hún.

„Við erum með fólk hérna á Íslandi, í Las Palmas …
„Við erum með fólk hérna á Íslandi, í Las Palmas á Spáni, við erum með einhvern í Namibíu og einnig með fólk í Ósló, svo það er mikið af athugunum sem eiga sér stað samtímis á mismunandi stöðum í þessum töluðu orðum.” mbl.is/Árni Sæberg

Roscher segir að rannsóknarteymi Wikborg Rein hafi þegar sett sig í samband við yfirvöld í nokkrum löndum, þar á meðal á Íslandi. Vinnan er þó bara nýhafin, segir hún, en sem stendur eru á milli 8 og 12 manns að sinna rannsóknarvinnu fyrir lögmannsstofuna vegna þessa máls. Þeim mun þó fækka, segir hún, þegar vettvangsvinnu í mismunandi löndum lýkur.

„Við erum með fólk hérna á Íslandi, í Las Palmas á Spáni, við erum með einhvern í Namibíu og einnig með fólk í Ósló, svo það er mikið af athugunum sem eiga sér stað samtímis á mismunandi stöðum í þessum töluðu orðum,” segir Roscher.

Aðspurð hvort hún geti skotið á hvenær lögmannsstofan ljúki rannsókn sinni segir Roscher að erfitt sé að segja til um það. Um stórt púsluspil sé að ræða. „Stundum taka rannsóknir ár, við teljum að það verði ekki tilfellið í því máli sem hér um ræðir en þessi tiltekna rannsókn gæti tekið einhverja mánuði,” segir hún.

Svona rannsóknir mjög oft gagnrýndar

Blaðamaður spurði Roscher nánar út í þá gagnrýni sem rannsókn Wikborg Rein á Samherja hefur hlotið hérlendis og það hvort lögmannsstofan myndi bregðast við á einhvern hátt færi svo að Samherji vildi ekki opinbera niðurstöðurnar með gagnsæjum hætti þegar rannsókninni lýkur.

„Þetta er mjög oft tilfellið [að gagnrýni og efasemdir komi fram] þegar alþjóðlegt fyrirtæki eða hvaða fyrirtæki sem er ræður þig til að framkvæma rannsókn á innri málum þess. Okkar fag er að skila af okkur hlutlægri rannsókn og við viljum safna staðreyndum og kynna þær fyrir fyrirtækinu þannig að fyrirtækið fái þær í hendur og geti í framhaldinu tekið ákvarðanir inn í framtíðina,“ segir Roscher og bætir við að heilindi Wikborg Rein skipti miklu máli fyrir lögmannsstofuna í verkefnum af þessu tagi. „Markmið okkar er að geta sagt að þetta séu hlutlægar staðreyndir.“

En Wikborg Rein er þó þegar allt kemur til alls í vinnu hjá Samherja og hefur ekkert um það að segja hvernig fyrirtækið á endanum kýs að opinbera niðurstöður rannsóknarinnar. Roscher segist ekki efast um að niðurstöðurnar verði kynntar skilmerkilega af hálfu Samherja þegar fram líða stundir.

„Þetta er mjög oft tilfellið [að gagnrýni og efasemdir komi …
„Þetta er mjög oft tilfellið [að gagnrýni og efasemdir komi fram] þegar alþjóðlegt fyrirtæki eða hvaða fyrirtæki sem er ræður þig til að framkvæma rannsókn á innri málum þess. Okkar fag er að skila af okkur hlutlægri rannsókn og við viljum safna staðreyndum og kynna þær fyrir fyrirtækinu þannig að fyrirtækið fái þær í hendur og geti í framhaldinu tekið ákvarðanir inn í framtíðina.“ mbl.is/Árni Sæberg

„Ég byggi svör mín hér á því sem fyrirtækið hefur sagt, og fyrirtækið hefur sagt að það vilji láta yfirvöld hafa aðgang að öllum staðreyndum sem rannsóknin leiði í ljós og síðan upplýsa almenning um niðurstöðuna einnig. Það er það sem þeir hafa sagt og ég hef enga ástæðu til þess að efast um að það sé það sem þeir ætli sér. Fyrirtækið hefur verið mjög hreinskiptið, mjög samstarfsfúst og mjög virkt í að hjálpa, safna og senda okkur skjöl sem skipta máli, til viðbótar við okkar eigin gagnasöfnun.“

Hún segir að það sé sín reynsla að þrátt fyrir að einkafyrirtæki þurfi ekki að opinbera niðurstöður rannsókna sem þessarar, séu flest fyrirtæki sem kjósi að gera það, en þó sé mismunandi hversu mikil smáatriði fyrirtækin gefi upp í kynningum sínum.

Ekki að skoða DNB

Lögmannsstofan Wikborg Rein er ekki eina norska tengingin inn í eftirmála birtingar Samherjaskjalanna, því fjallað hefur verið um meint peningaþvætti sem varðar norska bankann DNB, sem er í 34% eigu norska ríkisins.

Roscher segir að Wikborg Rein sé ekki að skoða þau mál, þau varði DNB. Málið hafi hins vegar vakið mikla athygli í Noregi, ekki síst þar sem ný löggjöf gegn peningaþvætti hafi tekið gildi þar í fyrra og ríkisstjórnin og fjármálaeftirlitið hafi nýlega sett mikinn slagkraft í að famfylgja löggjöfinni. „Það hefur verið mikill fókus á bankana og aðgerðir þeirra gegn peningaþvætti, svo augljóslega fær mál sem þetta mikla athygli og er tekið alvarlega af bönkunum, þar á meðal DNB,“ segir Roscher.

Of snemmt að fullyrða um sekt eða sakleysi

Rökstuddar ásakanir hafa komið fram á hendur Samherja um refsiverða háttsemi í viðskiptum í Namibíu og fyrrverandi starfsmaður fyrirtækisins sem steig fram sem uppljóstrari sagðist sjálfur hafa brotið lög með því að greiða mútur í þágu viðskiptahagsmuna Samherja. Spurð hvort þeir vitnisburðir og gögn sem Wikborg Rein hefur rýnt á þessum fyrstu stigum rannsóknarinnar gefi tilefni, að hennar mati, til þess að álykta um sekt eða sakleysi einstakra manna, segir hún svo ekki vera.

Þorsteinn Már Baldvinsson steig úr forstjórastóli Samherja fyrr í mánuðinum.
Þorsteinn Már Baldvinsson steig úr forstjórastóli Samherja fyrr í mánuðinum. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég hef í gegnum árin tekið þátt í of mörgum rannsóknum til þess að fara að hrapa að ályktunum, og hér tala ég einnig sem fyrrverandi saksóknari, þú verður að horfa á sönnunargögnin, jafnvel þó að einhver segi að hann hafi greitt mútur eða framið þennan eða hinn glæpinn. Sem saksóknari þarftu að sjá hvort sönnunargögnin styðji þann málflutning. Í því máli sem hér um ræðir hef ég ekki séð nægilega mikið af staðreyndum til þess að geta fullyrt nokkuð um það á þessu stigi. Við reynum að vera mjög hlutlæg og fá allar upplýsingarnar sem við þurfum til þess að meta staðreyndirnar og síðan munum við komast að lögfræðilegri niðurstöðu,“ segir Roscher.

mbl.is