Húsnæðisskortur hamlar uppbyggingu atvinnulífs

Reykjanesbær. Mikil spurn er eftir lóðum á Suðurnesjum.
Reykjanesbær. Mikil spurn er eftir lóðum á Suðurnesjum.

Niðurstöður húsnæðisáætlana sýna að í öllum landshlutum er þörf á nýju íbúðarhúsnæði þar sem víða á landsbyggðinni hefur lítið sem ekkert verið byggt af nýju íbúðarhúsnæði. Í sveitarfélögum víðs vegar á landsbyggðinni hefur viðvarandi húsnæðisskortur haft hamlandi áhrif á uppbyggingu atvinnulífs og þróun samfélaga.

Þetta kemur fram í skýrslu um stöðu og þróun í húsnæðismálum sem kynnt verður í dag í tengslum við húsnæðisþing sem haldið er á Hilton Reykjavík Nordica.

Reiknuð óuppfyllt íbúðaþörf nemur á bilinu 3.900 til 6.600 íbúðum fyrir landið allt í ársbyrjun 2020. Samkvæmt húsnæðisáætlunum sveitarfélaga er óuppfyllt íbúðaþörf metin nokkuð lægri eða um 3.300 íbúðir fyrir landið allt.

Flest sveitarfélög landsins telja að einna helst sé þörf fyrir minna og hagkvæmara húsnæði til leigu, kaupa eða hvors tveggja sem hentar einstaklingum, eldra fólki sem vill flytja í minna húsnæði, fólki sem þarfnast stuðnings við að afla sér húsnæðis og ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á fasteignamarkaði.

Samkvæmt húsnæðisáætlunum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og þeim upplýsingum sem Íbúðalánasjóður hefur er óuppfyllt íbúðaþörf á höfuðborgarsvæðinu því um 2.200 til 2.400 íbúðir.

Hveragerði.
Hveragerði.

2.300 íbúðir á Suðurnesjum á næstu 8 árum

Á Suðurnesjum hefur verið mikill uppgangur á húsnæðismarkaði síðustu ár. Lóðir sem hafa komið til úthlutunar hafa farið hratt út og mikil spurn hefur verið eftir lóðum í kjölfar aðflutnings fólks til sveitarfélaganna.

Niðurstöður húsnæðisáætlana sveitarfélaga á Suðurnesjum benda til þess að óuppfyllt íbúðaþörf á Suðurnesjum sé um 230 til 260 íbúðir. Á næstu átta árum nemur metin þörf allt að 2.300 nýjum íbúðum á svæðinu.

Samkvæmt húsnæðisáætlunum sveitarfélaga á Suðurlandi er uppsöfnuð íbúðaþörf metin á bilinu um 150 til 170 íbúðir. Á næstu átta árum er metið að þörf verði fyrir um 800 nýjar íbúðir á svæðinu.

Frá Reykjanesbæ.
Frá Reykjanesbæ. mbl.is/Sigurður Bogi

Hlutfallslega lengstu biðlistar á Suðurlandi

Niðurstöður húsnæðisáætlana og leiguíbúðakönnun um stöðu húsnæðismála sveitarfélaga sýna að í lok síðasta árs voru 2.488 aðilar á biðlistum eftir húsnæði á vegum sveitarfélaga. Alls voru um 1.719 á biðlista eftir félagslegu íbúðarhúsnæði á landinu, 379 voru á biðlistum eftir sértæku búsetuúrræði fyrir fatlað fólk, 347 voru á biðlistum fyrir íbúðir aldraðra og 43 á biðlista eftir annars konar leiguhúsnæði.

Þegar rýnt er í hlutfall fjölda umsækjenda á biðlista á móti heildarframboði í þeim sveitarfélögum sem höfðu fólk á biðlistum kemur í ljós að yfir landið allt er hlutfallið að meðaltali um 50%.

Hlutfallslega eru lengstu biðlistarnir á Suðurlandi en þar er hlutfall umsækjanda á biðlista á móti fjölda íbúða í eigu sveitarfélagsins, 103,6%. Hlutfallslega fæstir voru á biðlista á Vestfjörðum, tæp 25% af fjölda íbúða og á Austurlandi rúmlega 19% af fjölda íbúða í eigu sveitarfélagsins. Þetta eru þeir tveir landshlutar þar sem sveitarfélög eiga hlutfallslega mest af leiguíbúðum á landsvísu.

mbl.is