Vilja reisa kláf á Ísafirði

Eyrarfjall stendur við Ísafjarðarbæ.
Eyrarfjall stendur við Ísafjarðarbæ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félagið Odin Skylift hefur óskað eftir því við bæjarráð Ísafjarðarbæjar að settur verði upp kláfur sem færi upp Eyrarfjall.

Bæjarráð gerði ekki athugasemd við umsóknina, sem var lögð fram á fundi bæjarráðs á mánudaginn, en bendir á að gæta þurfi að öryggi og umhverfissjónarmiðum.

Á fundinum var lögð fram tillaga að einni byrjunarstöð og einni endastöð fyrir lyftu upp Eyrarfjall. Ákvörðun um endanlega staðsetningu yrði tekin í samráði við bæjaryfirvöld í kjölfar breytts aðal- og deiliskipulags sem nú er í vinnslu.

Í tillögunni er jafnframt gert ráð fyrir veitingastað og hóteli á Eyrarfjalli, auk göngustíga og aðstöðu fyrir ýmsa útivist á svæðinu.

Hugmyndir Odin Skylift samkvæmt tillögum sem lagðar voru fram í …
Hugmyndir Odin Skylift samkvæmt tillögum sem lagðar voru fram í bæjarráði Ísafjarðar.

Fram kom í samtali við Gissur Skarphéðinsson, framkvæmdaraðila verkefnisins, í Bylgjufréttum að fjárfestahópur væri tilbúinn að verja um tveimur og hálfum milljarði króna í að reisa kláfinn. Ef áætlanir ganga eftir mun hann ferja fyrstu farþegana upp á 250 manna veitingastað á toppi fjallsins eftir þrjú ár.

Búið er að skrá 140 skipakomur til Ísafjarðar næsta sumar, að sögn Gissurar, og á hann þar við farþega skemmtiferðaskipa. Ein ferð upp á að kosta 7.500 krónur en hugmyndin um verkefnið kom fyrir þrettán árum frá Úlfari Úlfarssyni, verslunareiganda á Ísafirði.

mbl.is