3,6% atvinnuleysi í október

Að jafnaði voru 7.400 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í október.
Að jafnaði voru 7.400 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í október. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Skráð atvinnuleysi í október mældist 3,6% og jókst um 0,1 prósentustig frá september. Að jafnaði voru 7.400 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í október, samkvæmt tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar. Á sama tíma í fyrra mældist atvinnuleysi 3%. 

Atvinnuþátttaka í október var 82,0%, sem er um 0,5 prósentustigum hærri atvinnuþátttaka en í september, en árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi fólks var 78,3%. Tölurnar benda til að atvinnuþátttaka hafi verið nokkuð stöðug þótt hlutfall hennar hafi lækkað lítillega, eða um 0,2 prósentustig. Þrátt fyrir að hlutfall starfandi sé enn nokkuð lægra, eða 0,7 prósentustigum lægra en fyrir hálfu ári, hefur hlutfallið farið hækkandi síðan í ágúst 2019. 

Áætlað að um 209.500 manns á aldrinum 16–74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í október sem jafngildir 81,3% atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu reyndust 202.200 vera starfandi og 7.400 án vinnu og í atvinnuleit. Óleiðréttar mælingar benda til þess að litlar breytingar séu á hlutfall starfandi af mannfjölda í október milli ára þó starfandi hafi fjölgað töluvert eða um 3.500 manns.

Samanburður mælinga fyrir október 2018 og 2019 bendir einnig til þess að vinnuaflið hafi aukist um 4.800 manns þó að hlutfall þess af mannfjölda hafi dregist saman um hálft prósentustig. Þá eru ívið fleiri áætlaðir utan vinnumarkaðar í október 2019, eða um 48.300, sem er aukning um nær 1.000 manns milli ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert