Á ekki og hefur aldrei átt Cape Cod FS

Samherji á ekki og hefur aldrei átt félagið Cape Cod FS og hefur aldrei falið öðrum að „leppa“ eignarhaldið á því.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fyrirtækinu, þar sem vísað er í fréttaflutning Stundarinnar og Ríkisútvarpsins um að Samherji hafi átt félagið Cape Cod FS og að JPC Shipmanagement, sem veitti félögum Samherja þjónustu, hafi „leppað“ eignarhald á Cape Cod FS fyrir Samherja.

Fyrirtækið bendir á ekkert í rannsókn lögmannsstofunnar Wikborg Rein í Noregi, sem það réð til að aðstoða við rannsókn á ásökunum vegna starfseminnar í Namibíu, bendi til hins gagnstæða.

Sett var í forgang að yfirfara greiðslur til félagsins Cape Cod FS.

„Cape Cod FS var í eigu JPC Shipmanagement sem þjónustaði félög tengd Samherja um mönnun á skipum í rekstri samstæðunnar. Kaup á þjónustu slíkra félaga er alþekkt í skiparekstri á alþjóðavísu. Bæði Stundin og Ríkisútvarpið hafa ranglega haldið því fram að um 70 milljónir dollara hafi farið í gegnum Cape Cod FS vegna starfseminnar í Namibíu. Hið rétta er að 28,9 milljónir dollara voru greiddar til félagsins vegna starfseminnar í Namibíu,“ segir í tilkynningunni.

„Í íslenskum fjölmiðlum hefur verið fullyrt að greiðslurnar í gegnum Cape Cod FS séu óútskýrðar og óeðlilegar. Þetta er alrangt. Í Namibíu eru gjaldeyrishöft við lýði. Til þess að framkvæma greiðslur út úr namibísku hagkerfi þurfa að fylgja margvísleg gögn til að sannreyna greiðsluna vegna haftanna. Af þessari ástæðu þarf að senda upplýsingar um greiðslur til hvers og eins áhafnarmeðlims ásamt afriti af vegabréfi hans til namibísks viðskiptabanka sem áframsendir upplýsingarnar til Seðlabanka Namibíu. Til þess að tryggja að allir áhafnarmeðlimir fengju réttar fjárhæðir greiddar í samræmi við verksamninga voru greiðslurnar yfirfarnar af bæði Cape Cod FS og af starfsmanni félags sem tengdist Samherja áður en þær voru inntar af hendi,“ segir einnig í tilkynningunni.

„Þær fjárhæðir sem fóru í gegnum Cape Cod FS voru yfirfarnar. Rannsóknin leiddi í ljós að greiðslurnar voru í samræmi við það sem tíðkaðist á markaði. Um var að ræða umfangsmikla útgerð og því ekkert óeðlilegt við þær fjárhæðir sem fóru í gegnum félagið vegna greiðslna til skipverja yfir langt tímabil.“

 „Þær ásakanir sem settar hafa verið fram um eignarhaldið á Cape Cod og greiðslur til félagsins eru rangar. Haldið verður áfram að rannsaka málið og veita hlutaðeigandi stjórnvöldum allar upplýsingar,“ segir Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja, í tilkynningunni.

Þar kemur fram að þess sé vænst að Stundin, Ríkisútvarpið og eftir atvikum aðrir fjölmiðlar leiðrétti rangan fréttaflutning um málið.

mbl.is