Torfajökulssvæði ekki tilnefnt á heimsminjaskrá um sinn

Jökulgil liggur til suðausturs frá Landmannalaugum inn undir Torfajökul. Torfajökulssvæðið …
Jökulgil liggur til suðausturs frá Landmannalaugum inn undir Torfajökul. Torfajökulssvæðið var samþykkt af Unesco á yfirlitsskrá Íslands fyrir sex árum, en það er fyrsti áfangi í tilnefningu svæðis til heimsminjaskrár. Jarðfræðingur hjá Náttúrustofu Íslands telur tilefni til að klára þá vinnu sem nauðsynleg er svo svæðið geti fengið tilnefningu á heimsminjaskrá. mbl.is/RAX

Einstakt landslag, líparíteldfjall, jarðhitasvæði og samspil Torfajökulseldstöðvarinnar og gosreinar Bárðarbungu eru helstu ástæður þess að Torfajökulsvæðið ætti að vera tilnefnt á heimsminjaskrá Unesco. 

Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Kristjáns Jónassonar, jarðfræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, á Hrafnaþingi stofnunarinnar í gær. Hrafnaþing er heiti á fræðsluerindum Náttúrufræðistofnunar sem eru á dagskrá yfir vetrartímann. Yfirskrift erindis Kristjáns var „Merkar jarðminjar á Torfajökulssvæði: Tilnefning á heimsminjaskrá?“ en tilefnið er að fjörtíu ár eru frá því að eldstöðin var að hluta til friðlýst með afmörkun Friðlands að Fjallabaki. 

Átta ár eru síðan ríkisstjórnin samþykkti að bæta Torfajökulssvæðinu á yfirlitsskrá heimsminja Íslands með tilnefningu til heimsminjaskrár Unesco í huga. Skrá­in tel­ur yfir 1.100 staði um all­an heim en staðir á list­an­um njóta vernd­ar sam­kvæmt alþjóðasamn­ing­um og er tal­in mesta gæðavott­un sem nátt­úr­ur­svæði get­ur hlotn­ast á heimsvísu.

Þrjú náttúrusvæði á Íslandi hafa náð þeim áfanga að komast á heimsminjaskrá Unesco. Surts­ey er skráð sem ein­stak­ur staður í jarðfræði og Þing­vell­ir í flokki menn­ing­ar­minja. Í sumar bættist Vatna­jök­ulsþjóðgarður í hópinn. 

Árið 2013 dró til tíðinda þegar Torfajökulseldstöðin var samþykkt af Unesco á yfirlitsskrá Íslands, en það er fyrsti áfangi í tilnefningu svæðis til heimsminjaskrár. Í yfirlitsskránni eru tiltekin fjögur atriði sem talið var að gætu uppfyllt viðmið Unesco fyrir heimsminjasvæði. 

Sérstaklega litríkt og fjölbreytt landsform

Í erindi sínu, sem horfa má í heild sinni neðst í fréttinni, fór Kristján yfir atriðin fjögur, en þrjú þeirra tengjast jarðminjum og eitt landslagi. Kristján segir ákaflega litríkt landsvæði svæðisins þar sem samspil eldvirkni, jarðhita, jökla og straumvatna hefur leitt til óvenju fjölbreyttra landforma geti hugsanlega uppfyllt eitt af viðmiðum Unesco sem fjallar um óviðjafnanlega náttúrufegurð. 

„Ég hygg að flestir séu sammála mér að þetta er bara ansi flott, fjölbreytt og litríkt,“ sagði Kristján og uppskar hlátur viðstaddra á meðan hann sýndi myndir af svæðinu sem eru hver annarri fegurri. Þess má geta að Kristján hefur sankað að sér yfir átta þúsund myndum af svæðinu. „Þannig það var svolítið erfitt að velja.“ 

Kristján Jónasson, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Kristján Jónasson, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Ljósmynd/NÍ

Hin atriðin þrjú tengjast jarðminjum. „Í fyrsta lagi er það eldfjallið sjálft, sem er líparíteldfjall í basaltsskorpu við rekbelti. Þetta er eina eldfjallið á Íslandi sem býr aðallega til líparít og við teljum að þetta sé hvergi annars staðar í heiminum,“ segir Kristján. Líparít, eða ljósgrýti, er súrt gosberg sem myndast í eldgosi og þess vegna storknað tiltölulega hratt. 

Í öðru lagi má nefna jarðhitasvæðið sem er stærsta háhitasvæði landsins. Landmannalaugar eru líklega þekktasta kennileiti háhitasvæðisins sem nær þó yfir mun stærri flöt. „Þetta er mjög víðáttumikið og það eru fjölbreyttar aðstæður á yfirborði og það er mikill breytileiki í jarðhitavökvanum, það er því vatni sem er að koma upp. Þetta veldur því að það eru margar tegundir af mismunandi hverum og laugum. Þessu fylgir lífríki, bæði afar fágætar hveraörverur eða hitaþolnar örverur og mikill breytileiki í þeim innan svæðisins,“ segir Kristján. 

Í þriðja lagi má nefna samspil Torfajökulseldstöðvarinnar og gosreinar Bárðarbungu. Kristján segir eldvirkni innan Torfajökulseldstöðvarinnar á nútíma bera þess glögg merki að landrek er að brjótast inn í hana úr norðri.

Óróleiki í Bárðarbungu getur leitt til goss á Torfajökulssvæðinu

Torfajökulssvæðið er virk eldstöð en Kristján segir að ekki þurfi að huga sérstaklega að því þegar litið er til tilnefningar á heimsminjaskrá. Aðspurður hvort von sé á gosi á næstunni segir Kristján það ekki útilokað þar sem svo virðist sem gos verið á svæðinu á 6-800 ára fresti. Síðasta gos var árið 1480 þegar Veiðivötn mynduðust. Þá má hugsanlega ætla að óróleiki í Bárðarbungu undanfarna tvo áratugi geti á endanum leitt til öflugrar gos- og rekhrinu á þessum slóðum.

„En Torfajökulseldstöðvakerfið er orðið þroskað og hefur ekki bært á sér nýlega nema þegar Bárðarbungukerfið ýtir við henni. Með gostíðni er hjálplegt að vita hversu oft þetta gerist en það er ómögulegt að nota það til að spá fyrir um hvenær næsta gos kemur,“ segir Kristján. 

Litskrúðug líparítfjöll Torfajökulssvæðisins gætu orðið fjórða náttúrusvæðið á Íslandi sem …
Litskrúðug líparítfjöll Torfajökulssvæðisins gætu orðið fjórða náttúrusvæðið á Íslandi sem kemst á heimsminjaskrá Unesco. Surtsey, Þingvellir og Vatnajökulsþjóðgarður er á skránni sem er tal­in mesta gæðavott­un sem nátt­úr­ur­svæði get­ur hlotn­ast á heimsvísu. mbl.is/RAX

Formlegur undirbúningur af hálfu ráðuneytis ekki hafinn

Næsta skref felst í að vinna svokallaða tilnefningaskýrslu sem skila þarf inn til Unesco. „Þar er náttúrufari vandlega lýst og hvað er einstakt og borið saman við önnur svæði á heimsminjaskránni. Svo þarf líka að styrkja bæði vernd og stjórnun á svæðinu til þess að fá tilnefningu,“ segir Kristján. 

Svo að vinna við tilnefningaskýrslu hefjist þarf frumkvæði frá heimsminjanefnd sem starfar á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytis. „Vinnan mun síðan taka eitt eða tvö ár,“ segir Kristján, en ekki hefur borist beiðni frá nefndinni að útbúa yfirlitsskrá fyrir Torfajökulssvæðið enn sem komið er. 

Ástæðan fyrir því að tilnefningin hefur tafist má meðal annars rekja til þess að Vatnajökulsþjóðgarður var tekinn fram fyrir í röðinni, en hann komst á heimsminjaskrá Unesco í júlí. „Það er hugsanlegt að menn vilji taka eitthvað annað fyrst, til dæmis íslenska torfbæinn, en ég get svo sem ekki svarað fyrir það,“ segir Kristján. 

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti setti í tíð Svandísar Svavarsdóttur á laggirnar nefnd til þess að skoða hugmyndir og möguleika á að stækka Friðland að fjallabaki með það í huga að friðlandið næði yfir nægilega stórt og heildstætt svæði sem mögulegt væri að skoða sem hugsanlegt tilnefningarsvæði.

Í svari frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti við fyrirspurn mbl.is kemur fram að í niðurstöðu nefndarinnar fólst ekki bein afstaða til stærðar eða hugmynda um stækkun friðlandsins með hliðsjón af heimsminjatilnefningu. Mennta- og menningarmálaráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafa því ekki tekið ákvörðun um að hefja formlegan undirbúning við vinnu við að tilnefna svæðið á heimsminjaskrá.

Með því að vinna að því að fá Torfajökulssvæði tilnefnt á heimsminjaskrá Unesco mun það sýna fram á metnað stjórnvalda að sögn Kristjáns. „Flestar þjóðir hafa metnað fyrir því að hafa sína fínustu hluti á listanum. Ef það er samþykkt er þetta stimpill um að þetta sé einstakt á heimsvísu og að svæðið sé almennilega verndað og vaktað og aðgengi stýrt svo að verndargildið tapist ekki.“


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert