Styrkir til fjölmiðla lækki

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Nái nýtt fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, fram að ganga, verða styrkir til einkarekinna fjölmiðla um fjórðungi lægri en gert var ráð fyrir í fyrra frumvarpi. 

Greint er frá þessu á ruv.is og þar segir að frumvarpið hafi verið kynnt þingflokkunum í gær.

Í fyrra frumvarpinu var gert ráð fyrir því að fjölmiðlar fengju 25% af launakostnaði sínum við rekstur ritstjórnar endurgreiddan úr ríkissjóði og að hámark þeirrar endurgreiðslu yrði 50 milljónir á ári. Í frétt RÚV segir að í nýja frumvarpinu hafi þetta hlutfall verið lækkað í 20% en að hámarksendurgreiðslan sé áfram 50 milljónir.

Þá var í fyrra frumvarpi ákvæði um að veita mætti fjölmiðlum viðbótarendurgreiðslu upp á 5,15% af launum starfsmanna á ritstjórn, en í nýja frumvarpinu hefur þetta hlutfall verið lækkað í 3%.

Á vef RÚV segir að kostnaður ríkisins vegna þessara styrkja hafi í fyrra frumvarpi verið áætlaður 520 milljónir, en að hún lækki nú í 400 milljónir. Gert er ráð fyrir því að frumvarpið taki gildi um áramótin og nái til rekstrarársins 2019.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert