„Veikir vitanlega ríkisstjórnina“

Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.
Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. mbl.is/Hari

„Það veikir vitanlega ríkisstjórnina þegar þingmaður yfirgefur einn af þingflokkum hennar. En að sama skapi dregur það eitthvað úr veikingunni að þarna er á ferðinni þingmaður sem hafði efasemdir um stjórnarsamstarfið allt frá upphafi.“

Þetta segir Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, í samtali við mbl.is vegna frétta í gær af því að Andrés Ingi Jónsson hefði ákveðið að segja skilið við þingflokk Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs.

Þegar ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins var mynduð eftir þingkosningarnar 2017 lýsti Andrés því yfir að hann styddi ekki stjórnarsamstarfið en ætlaði að starfa áfram innan þingflokksins. Sama gerði Rósa Björk Brynjólfsdóttir.

Þótt Andrés hafi lýst því yfir að hann styddi ekki stjórnarsamstarfið bendir Eiríkur á að samkvæmt skilgreiningunni hafi hann engu að síður talist til stjórnarþingmanna sem þingmaður eins af stjórnarflokkunum.

Fókusinn færist á Rósu Björk

„Munurinn er sá að núna er Andrés farinn úr þingflokknum og tilheyrir þar með stjórnarandstöðunni og getur beitt sér af miklu meira afli en hann gerði sem hluti af stjórnarliðinu jafnvel þótt hann hafi verið vaklandi í stuðningi sínum.“

Eiríkur segir að það sé hins vegar óvíst að þetta breyti miklu um stöðu ríkisstjórnarinnar á þingi. „Það fer vitaskuld mikið eftir því hvað hinn þingmaðurinn sem hefur haft samsvarandi efasemdir gerir og hvort hún fylgi í kjölfarið.“

Það veki auðvitað athygli að Andrés skuli einn taka þessa ákvörðun á meðan fréttir hermi að Rósa Björk sé fjarverandi. Fókusinn færist fyrir vikið svolítið yfir á hana og hvað hún geri. Fari hún sömu leið veiki það enn stöðu stjórnarinnar.

Þingmenn stjórnarflokkanna þriggja eru í dag 34 eftir brotthvarf Andrésar og yrðu þar með 33 tæki Rósa Björk sömu ákvörðun. „Það þýddi að hver einasti stjórnarþingmaður væri kominn með miklu sterkari stöðu gagnvart ríkisstjórninni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert