Ákvörðunin í skásta falli heimskuleg

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi ákvörðun stjórnar RÚV er í skásta falli heimskuleg en jaðrar þó líklega frekar við að vera hreint hneyksli.“

Þetta segir Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi útvarpsstjóri, á Facebook-síðu sinni um þá ákvörðun stjórnar Ríkisútvarpsins að listi yfir umsækjendur um stöðu útvarpsstjóra verði ekki birtur opinberlega eftir að umsóknarfrestur rennur út á mánudaginn með þeim rökum að það auki möguleikana á að fá betri umsækjendur.

„Staða útvarpsstjóra er þeirrar gerðar að um hana, og þá sem sækja um hana, getur ekki og má ekki ríkja nein leynd,“ segir Páll enn fremur en staðan var auglýst eftir að Magnús Geir Þórðarson, sem  var ráðinn þjóðleikhússtjóri, lét af störfum sem útvarpsstjóri.

„Þegar þessari ákvörðun er bætt við þá stórundarlegu yfirlýsingu sömu stjórnar um daginn að RÚV hafi þurft sérstaka staðfestingu Ríkisendurskoðanda á því að stofnuninni bæri að fara að lögum þá er óhjákvæmilegt að velta fyrir sér á hvaða vegferð þessi stjórn er. Og þeir sem velja hana,“ segir Páll.

Vísar hann til þeirrar afstöðu stjórnar Ríkisútvarpsins að óvissa hafi ríkt um það hvort setja hafi þurft samkeppnisrekstur þess í dótturfélag. Ríkisendurskoðandi hefur sagt að Ríkisútvarpið hafi brotið lög með því að gera það ekki og að engin slík óvissa hafi verið til staðar.

Stjórn Ríkisútvarpsins er kosin á aðalfundi ár hvert. Alþingi tilnefnir níu fulltrúa í stjórnina og jafn marga til vara. Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefnir einn fulltrúa og annan til vara.

Flokksbróðir Páls, Brynjar Níelsson alþingismaður, gagnrýndi einnig ákvörðunina um að birta ekki lista yfir umsækjendur á Alþingi á dögunum á þeim forsendum að Ríkisútvarpið hefði verið upptekið af gagnsæi hjá öðrum. Það virtist hins vegar ekki gilda um það sjálft.

Hins vegar sagðist Brynjar hafa skilning á rökunum fyrir ákvörðun Ríkisútvarpsins og sagði ástæðu til að skoða hvort breyta ætti lögum á þá leið að heimila að ekki væru birtir listar yfir umsækjendur um störf.

mbl.is

Bloggað um fréttina