Dómsmálaráðherra kynnir breytingu á áfengislögum

Dómsmálaráðherra leggur til rýmkaðar reglur um sölu áfengis.
Dómsmálaráðherra leggur til rýmkaðar reglur um sölu áfengis. Kristinn Magnússon

Dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hefur sett í samráðsgátt frumvarp um breytingu á áfengislögum. Í samráðsgáttinni segir að frumvarpið feli meðal annars í sér tvær undanþágur frá einokun ÁTVR á smásölu áfengis. Annars vegar til þess að heimila innlenda vefverslun með áfengi til neytenda í smásölu og hins vegar að heimila framleiðendum áfengis að selja áfengi til neytenda með ákveðnum takmörkunum.

Einkaréttur ÁTVR til innflutnings afnuminn árið 1995

Þá segir að á grundvelli áfengislaga hafi Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins einokun á smásölu áfengis til neytenda, en árið 1995 hafi einkaréttur fyrirtækisins til innflutnings áfengis verið afnuminn og almenningi gert kleift að flytja áfengi til landsins, þó ekki til smásölu. Kveðið sé berum orðum á um að sérstakt leyfi þurfi fyrir áfengisinnflutning í atvinnuskyni, en ekki sé kveðið á um að almenningur þurfi leyfi til innflutnings á áfengi til einkaneyslu. Hafi þetta leitt til þess að almenningur hafi um áratugaskeið getað keypt sér áfengi í erlendum verslunum, til dæmis í gegnum netið, og látið senda heim að dyrum, að áfengis- og innflutningsgjöldum uppgerðum.

Mætir vaxandi kröfum um aukið valfrelsi

Með frumvarpinu sé ráðgert að heimila starfsrækslu innlendra vefverslana með áfengi í smásölu til neytenda. „Frumvarpinu er ætlað að mæta sívaxandi kröfum neytenda um aukið valfrelsi,“ segir í samráðsgáttinni, og þá sé nauðsynlegt að jafna stöðu innlendrar verslunar og erlendrar. Með skírskotun til jafnræðis fái ekki staðist að mismuna innlendri verslun með þessum hætti.

„Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að mæta kröfum minni áfengisframleiðenda, sérstaklega á landsbyggðinni, um að heimilt verði, í tilteknum tilvikum, að selja áfengi í smásölu til neytenda. Felur það í sér að áfengisframleiðanda verði heimilt að selja á framleiðslustaðnum eigin framleiðslu í neytendaumbúðum, til neyslu annars staðar. Í nágrannalöndum Íslands tíðkast að smásala á handverksáfengi (t.d. bjór eða víni) sé heimiluð beint frá framleiðanda til neytenda, t.d. í tengslum við ferðaþjónustu,“ segir í samráðsgáttinni um fyrirhugað áfengisfrumvarp.

Umsagnarfrestur rennur út 13. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert