Óboðleg umræða afneitunarsinnna

Andri Snær Magnason telur að gjöld á flugið muni aukast.
Andri Snær Magnason telur að gjöld á flugið muni aukast. mbl.is/Eggert

Andri Snær Magnason rithöfundur segir það ábyrgðarhluta hjá íslenskum fjölmiðlum að leiða fram afneitunarsinna í loftslagsumræðunni.

Tilefnið er meðal annars borgarafundur um loftslagsmál í Kastljósinu fyrr í þessum mánuði en Andri Snær var þar meðal pallborðsmanna.

„Ég hef engar forsendur til að vantreysta jöklafræðingum, loftslagsfræðingum eða sjávarlíffræðingum. Ég hef hvorki gögn né menntun til þess. Við eigum frábært vísindafólk á þessum sviðum. Ég held það megi frekar gagnrýna vísindamenn fyrir að hafa verið of varfærnir [í loftslagsumræðunni]. Þeir fullyrða helst ekki neitt og þeir eru mjög sjaldan í pólitík. Það er til dæmis nær aldrei vísindamaður á Alþingi. Það er mjög strangur skóli í vísindunum. Síðan mætir einhver leikmaður í sjónvarpið og ætlar út frá engri þekkingu að segja að íslenskir vísindamenn séu í einhvers konar samsæri um styrki, eða ræða um samsæri Sameinuðu þjóðanna um að skattleggja heiminn. Því miður hefur það áhrif á fólk. Þessi orðræða er ekki boðleg,“ segir Andri Snær sem vísar til ummæla Ernu Ýrar Öldudóttur blaðamanns í Kastljósþættinum. Rætt var við Ernu Ýri á mbl.is í kjölfar þáttarins en hún telur loftslagsumræðuna einhliða.

Treystir vísindamönnum

Andri Snær telur enga ástæðu til að vantreysta vísindamönnum.

„Ég hef enga skoðun á hvatberum. Ég get ekki mælt CO2 sjálfur en ég trúi því samt að það sé í andrúmsloftinu. Vísindamenn eru sérhæfðir á sínu sviði. Jöklafræðingurinn er kannski leikmaður í sjávarlíffræði og sjávarlíffræðingurinn leikmaður þegar kemur að jöklafræði. Mitt hlutverk er að tala við allt þetta fólk, sem ég treysti, og síðan leggja mig fram um að skilja það eins og mér er unnt og síðan miðla því og setja í stærra samhengi sem getur þá verið goðafræði, ljóðrænt samhengi og persónulegt samhengi, vegna þess að þannig skiljum við líka upplýsingar og gögn. Annars vegar eru vísindin og hins vegar þeir sem tileinka sér efni sem bandarískar hugveitur hafa verið að framleiða. Síðan rægja þeir jafnvel vísindamenn sem hafa unnið að rannsóknum í mörg ár, og vefengja. Ég veit ekki á hvaða forsendum ætti að bjóða vísindamönnum að lenda í því hlutverki að verja sig fyrir slíkum ásökunum.“

Andri Snær Magnason rithöfundur.
Andri Snær Magnason rithöfundur. mbl.is/Árni Sæberg

Mannkynið teflir djarft

Andri Snær segir aðspurður að fjölmiðlar ættu að hugsa sinn gang. Þeir gefi þessum sjónarmiðum alltof mikið rými. Hér sé enda ekki um að ræða deild innan NASA eða skóla innan þessara fræða sem sé að skila af sér niðurstöðum sem sannarlega myndu gefa tilefni til að efast.

„Þegar ég skoða gögnin sem leikmaður og reyni að skilja þau er það skoðun mín að við séum að tefla ótrúlega djarft sem mannkyn með því að telja okkur trú um að losun sem jafnast á við stærstu eldgosaskeið jarðsögunnar hafi ekki nein áhrif; að opna sem svarar 666 Eyjafjallajökla og láta þá fara að gjósa. Það er eins og ef einhver hefði afneitað kóleru og holræsum á 19. öld. Það þarf hins vegar aðeins eina svona vafarödd til að slökkva í fólki. Þannig var ég mjög lengi sjálfur. Ég vildi náttúrlega ekki að þetta væri að gerast – enginn vill að eitthvað svona alvarlegt sé að gerast – og ég hef engan sérsakan áhuga á því að hætta að fljúga eða keyra jeppa upp á fjöll eða borða nautakjöt. En gögnin liggja fyrir og þetta er klemma sem mannkynið er í.

Þess vegna er svo þægilegt þegar einhver kemur og segir málið umdeilt. Þá getur maður hugsað með sér: „Jæja þá, þetta er umdeilt. Það þarf ekkert að taka þetta alvarlega.“ Það sýndi sig í sálfræðirannsóknum hvað varðar reykingar að það dugði að einn læknir kæmi fram og segði „Nei, nei, þetta hefur engin áhrif heldur er þetta heilsubætandi. Þetta hreinsar sýkla úr lungunum.“ Það dugði mjög lengi, jafnvel fram á áttunda áratuginn, til að talið væri umdeilanlegt hvort þær væru skaðlegar. Þetta er nákvæmlega það sama.“

Nánar má lesa um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert