Reglur um mannanöfn rýmkaðar

Áslaug Arna vill rýmka reglur um mannanöfn, heimila ættarnöfn og …
Áslaug Arna vill rýmka reglur um mannanöfn, heimila ættarnöfn og leggja niður mannanafnanefnd. Haraldur Jónasson/Hari

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur lagt fram til kynningar drög að frumvarpi til laga um mannanöfn með það að markmiði að rýmka heimildir til skráningar nafna og kenninafna. Í samráðsgátt segir að í áformuðu frumvarpi sé áætlað að leggja til að afnema eða rýmka eins og mögulegt er þær takmarkanir sem felist í núgildandi löggjöf um mannanöfn. Ákvarðanir mannanafnanefndar hafi þótt benda til þess að löggjöf um mannanöfn sé of ströng og að erfitt geti verið að fá nöfn skráð hér á landi séu þau ekki fyllilega í samræmi við íslenskan rithátt og málhefð. Með víðtækari heimildum til skráningar nafna sé talið að ekki verði þörf á að hafa mannanafnanefnd og því sé ráðgert að leggja til í frumvarpinu að hún verði lögð niður.

Réttur til nafns njóti verndar

Í umfjöllun um tilefni frumvarpsins segir að því sjónarmiði hafi vaxið ásmegin að réttur manna til að ráða sjálfir nöfnum sínum og barna sinna sé ríkari en hagsmunir samfélagsins af því að takmarka þann rétt. Réttur til nafns hafi verið talinn njóta verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og verði hann aðeins takmarkaður með lagaheimild ef brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annarra.

Heimilt að taka upp ættarnöfn

Þá segir að gert sé ráð fyrir margvíslegum breytingum á lögum um mannanöfn og líklegt sé að sú leið verði farin að fella núgildandi lög úr gildi og setja alveg ný lög. Áformað er að reglur um skráningu eiginnafna verði rýmkaðar til muna. Reglur um að eiginnafn verði að geta tekið eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli verði afnumdar, sem og reglur um að nafn megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi. Nöfn skuli rituð með bókstöfum latneska stafrófsins, þar með töldum viðurkenndum sérstöfum. Heimilt verði að taka upp ættarnöfn en önnur kenninöfn verði í samræmi við íslenska hefð um ritun kenninafna. Afnumin verði takmörk á fjölda skráðra nafna. Lagt verður til að mannanafnanefnd verði lögð niður enda verði mun minni þörf á hlutverki hennar verði reglur um skráningu nafna rýmkaðar.

Umsagnarfrestur rennur út 13. desember.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert