Undiralda hjá VG

Katrín Jakobsdóttir á flokksráðsfundi VG.
Katrín Jakobsdóttir á flokksráðsfundi VG. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur segir Andrés Inga Jónsson og Rósu Björk Brynjólfsdóttur ekki hafa verið einu fulltrúa VG sem tortryggðu ríkisstjórnarsamstarfið. Umræða um Samherjamálið og kvótakerfið eigi þátt í undiröldunni hjá flokknum.

Andrés Ingi sagði sig úr þingflokki VG í vikunni en þau Rósa Björk hafa haft efasemdir um stjórnarsamstarfið. 

Það dró til frekari tíðinda hjá flokknum í dag þegar Sóley Tómasdóttir, oddviti VG í borgarstjórn 2009-2016, lýsti yfir stuðningi við Andrés Inga. VG væri að verða sífellt máttlausari flokkur.

„Undiraldan birtist strax í upphafi. Fólk úr baklandi flokksins lýsti yfir andstöðu við ríkisstjórnarsamstarfið. Síðan heyrðist lítið frá þeim. Ég hef ekki orðið var við að fólk hafi lýst yfir andstöðu síðan. Það er hins vegar stundum undiralda í pólitík sem maður átti ekki von á. Samherjamálið er dæmi um það. Maður veit ekki hvernig það þróast. Það mál kom flatt upp á alla,“ segir Birgir.

Verður Rósa áfram í þingflokknum?

Það hafi helst komið honum á óvart að Birgir og Rósa Björk skyldu vera áfram í þingflokki VG. Það eigi eftir að koma í ljós hvort Rósa Björk verði áfram í þingflokknum.

Spurður hvort úrsögn Andrésar og stuðningsyfirlýsing Sóleyjar sé vísir að frekari umbrotum — sé tækifæri til að skapa sér vígstöðu fyrir kosningar — bendir Birgir á að Andrés og Sóley hafi frá upphafi verið í þeim hópi fólks sem var óánægt með ríkisstjórnarsamstarfið.

Gæti styrkt Sósíalistaflokkinn

Birgir kveðst aðspurður ekki sjá fyrir sér nýtt framboð á vinstri vængnum. Hins vegar geti ólgan á vinstri vængnum gagnast Sósíalistaflokknum. Þar fari flokkur sem skilgreini sig til vinstri við VG. Hins vegar sé kjörtímabilið aðeins hálfnað.

Varðandi kvótamálin bendir Birgir á að Samfylkingin og Píratar séu nokkurn veginn sammála í þeim málaflokki. Þá virðist sem Viðreisn sé á líku róli.

„Ef kvótamálið verður stærsta málið [í kosningunum] er spurning hvort flokkar eins og Sósíalistaflokkurinn, sem náði ágætiskjöri í borgarstjórn, fái byr. Maður veit það aldrei,“ segir Birgir og ítrekar að enn sé langt í kosningar. Því borgi sig að ganga ekki langt í spádómum.

Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur.
Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert