Laganemar syrgja „gítarsóló æðri mennta“

Lögberg, bygging laganema við HÍ. Eftir breytingar á reglum um …
Lögberg, bygging laganema við HÍ. Eftir breytingar á reglum um skiptinám mega verðandi lögfræðingar vænta þess að verja hér að minnsta kosti 9 önnum af lífi sínu, því nú má bara fara eina önn í skiptinám. Ljósmynd/HÍ

Þótt nemendur í grunnnámi við flestar deildir Háskóla Íslands eigi kost á skiptinámi við erlendan háskóla á það ekki við um laganema. Það er ekki fyrr en á meistarastigi sem boðið er upp á slíkt á þeim bænum, sem kemur svo sem ekki mjög að sök, enda flestir sem drífa alla leið á meistarastig.

Þessi réttindi meistaranema í lögum hafa verið skert: Nú er aðeins heimilt að halda utan í eina önn, en ekki tvær, eins og hefur verið fram að þessu. Forseti félagsvísindasviðs háskólans segir að ákvörðunin byggist „á faglegum forsendum um sérhæfingu nemenda“ en alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs gagnrýnir ákvörðunina harðlega og fyrrverandi laganámsskiptinemi talar um „algera synd“.

Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur: „Að fara heim eftir eina önn …
Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur: „Að fara heim eftir eina önn í skiptinámi er eins og að slökkva á Hotel California áður en gítarsólóið byrjar.“ Ljósmynd/Julia Colavita

Fyrrverandi skiptinemi sem mbl.is ræddi við er Halldór Armand Ásgeirsson, nú rithöfundur. Vetur og vor 2009 — 2010 var hann í skiptinámi í Madríd í lögfræði og segir heilt ár hafa verið algert lágmark. „Fyrsta önnin var bara helguð því erfiði sem nýtt tungumál og nýr staður gera ráð fyrir. Á seinni önninni byrjarðu síðan að njóta ávaxta þess erfiðis. Í eina önn geturðu verið túristi, en í tvær annir hluti af samfélagi,“ segir Halldór.

Halldór metur það sem svo að kostur á tveggja anna skiptinámi skipti verulegu máli fyrir menntun íslenskra lögfræðinga og geri þá einfaldlega að betri lögfræðingum. „Það segir sig sjálft hvað víðsýni skiptir miklu máli og ég tala nú ekki um á sviði sem er jafnþröngt og lokað og íslensk lögfræði. Það er alger synd að fólki bjóðist ekki framar þessi reynsla í heild sinni því það að fara heim eftir eina önn er auðvitað bara eins og að ...“ segir rithöfundurinn og hugsar sig um, „eins og að slökkva á Hotel California áður en gítarsólóið byrjar. Seinni skiptinámsönnin er, já, gítarsóló æðri mennta.“

Slæm ákvörðun sem kemur á slæmum tíma

Nefndur alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands, Kolfinna Tómasdóttir, sem jafnframt er sjálf í meistaranámi í lögfræði, tekur í sama streng og Halldór og gengur enn lengra: Hún segir ákvörðunina „stórt skref aftur á bak í alþjóðamálum háskólans“.

Kolfinna Tómasdóttir, alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs HÍ, segir ákvörðunina skref aftur á …
Kolfinna Tómasdóttir, alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs HÍ, segir ákvörðunina skref aftur á bak í alþjóðamálum, auk þess sem hún sé illa tímasett. Ljósmynd/Helga Lind Mar

Þannig verði þarna að einhverju leyti ómögulegt fyrir nemendur að sækja sér þekkingu sem þeir eiga í annan stað ekki kost á hér á landi. Því muni lagadeildin einfaldlega ekki útskrifa eins fjölbreytta nemendur og ella, segir Kolfinna, og á svipað bendir Halldór, að framboðið af Evrópu- og alþjóðarétti hvers kyns hafi verið margfalt meira erlendis en heima.

Kolfinna segir sorglegt að verið sé að skerða eina gluggann sem laganemar við HÍ hafi til að öðlast alþjóðlega reynslu. Að auki gagnrýnir hún tímasetningu ákvörðunarinnar. „Ákvörðunin er eitt, og hún er slæm í sjálfu sér, en tímasetningin er annað. Í fyrsta lagi kemur þetta núna í miðjum prófum og í öðru lagi tekur þetta strax gildi næsta haust, þannig að nemendur sem höfð­u skráð sig í nám í haust og ætlað til dæmis að vera í hlutanámi þar til þeir færu í heilsársskiptinám næsta haust geta gleymt því,“ segir Kolfinna. Þegar hafði skiptinámið 2020 — 2021 verið mikið og vel auglýst og ekki ólíklegt að einhverjir hafi ráðgert að fara þá í skiptinám.

Kolfinna segir loks að ákvörðun sem þessi gangi á sinn hátt gegn stefnu háskólans um að efla alþjóðamál stofnunarinnar. Þannig standi skýrum stöfum í stefnu háskólans að eitt af markmiðunum sé að „auka tækifæri nemenda til þátttöku í alþjóðastarfi“, til dæmis með því að „auðvelda nemendum skiptinám“.

Aldrei markmiðið að gera mönnum lífið leitt

Forseti­ félagsvísindasviðs háskólans, Daði Már Kristófersson, segir að markmiðið með ákvörðuninni hafi verið að draga úr vægi skiptináms í náminu. Hver og ein deild innan skólans hafi heimild til þess að ákvarða sjálf hversu mikið vægi skiptinám má hafa í hverri námsleið og að lagadeildin hafi metið það svo að það skyldi minnkað. Sú ákvörðun er að sögn Daða ekki tímabundin, heldur varanleg.

Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, segir að ákvörðunin …
Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, segir að ákvörðunin snúi að því að útskrifa betri lögfræðinga fyrir íslenskt samfélag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þarna búa að baki eðlilegar forsendur um sérhæfingu nemenda sem ljúka prófi frá Háskóla Íslands,“ segir Daði. „Við auðvitað sinnum ákveðnu hlutverki í íslensku samfélagi, sem sagt að mennta lögfræðinga til embættisprófs í lögum. Það eru þeir hagsmunir samfélagsins sem hérna er verið að taka tillit til,“ segir hann.

Um tímasetninguna, sem Kolfinna segir óheppilega, segir Daði að vitaskuld sé í hvívetna reynt að virða hagsmuni nemenda í svona málum og reynt að koma til móts við þá í þeim tilfellum sem það þarf. „Markmiðið er auðvitað aldrei að gera þeim lífið leitt,“ segir Daði.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert