VR mun taka þátt í kröfufundi Stjórnarskrárfélagsins

Fjölmenn mótmæli voru síðasta laugardag á Austurvelli.
Fjölmenn mótmæli voru síðasta laugardag á Austurvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stéttarfélagið VR tekur þátt í kröfufundi sem Stjórnarskrárfélagið stendur fyrir og fer fram á Austurvelli næsta laugardag, 7. desember, klukkan 14. Kröfur fundarins eru þrjár talsins og meðal annars er þess krafist að sjávarútvegsráðherra segi af sér embætti.

Þess er einnig krafist að „arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna renni í sjóði almennings til uppbyggingar samfélagsins og til að tryggja mannsæmandi lífskjör allra. Alþingi lögfesti nýja og endurskoðaða stjórnarskrá sem landsmenn sömdu sér og samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 - að sjálfsögðu með því auðlindaákvæði sem kjósendur samþykktu.“ Þetta kemur fram í tilkynningu. 

VR, stærsta stéttarfélag landsins, hefur bæst í hóp þeirra félaga sem standa að
kröfufundinum. Aðrir aðstandendur fundarins eru Stjórnarskrárfélagið, Efling stéttarfélag,
Öryrkjabandalag Íslands, Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá og Gagnsæi – samtök
gegn spillingu.

Þessi fundur er haldinn í framhald af þeim sem var haldinn á Austurvelli síðasta laugardag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina