Hæfustu laganemarnir lifa af

Næsta haust fá þeir sem uppfylla grunnskilyrði inngöngu í lagadeild. …
Næsta haust fá þeir sem uppfylla grunnskilyrði inngöngu í lagadeild. Það sem sker úr um framtíð nemenda við deildina verður árangur þeirra á fyrstu önn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir sem hyggjast leggja lögfræði fyrir sig í lífinu, og vilja byrja að lesa lög næsta haust, munu ekki eins og síðustu nokkrar kynslóðir laganema þreyta svonefnt A-próf sem skeri úr um hvort þeim bjóðist skólapláss við lagadeild Háskóla Íslands eða ekki. A-prófið hefur verið fellt niður.

Allir fá skólapláss sem uppfylla almenn skilyrði, sem sagt eru með stúdentspróf, og það sem nú mun ráða úrslitum um afdrif laganemanna verður þá frammistaða þeirra á fyrstu önninni í háskólanum. Þar er að duga eða drepast.

Forseti félagsvísindasviðs háskólans, Daði Már Kristófersson, segir að A-prófin hafi ekki gefið þá raun sem lagt var upp með og því sé horfið aftur til fyrra horfs. „Þetta verður með sama hætti og var hér um áratugaskeið, að þeir sem uppfylla almenn skilyrði um inngöngu í lagadeild eru teknir inn, og þá er það námsárangur á fyrsta misseri sem stýrir því hverjir halda áfram,“ segir Daði.

A-prófið var tekið upp 2014 til þess að minnka brottfall …
A-prófið var tekið upp 2014 til þess að minnka brottfall nemenda. Það endaði hins vegar á að hafa öfug áhrif og minnka fjölda nemenda. mbl.is/Kristinn Ingason

Átti að minnka brottfall en nemendur eru einfaldlega orðnir of fáir

A-prófið var tekið upp í lagadeild árið 2014 í von um að minnka brottfall úr deildinni. Hópurinn sem hóf nám átti þannig að standa sterkar að upplagi. Brottfallið er hins vegar enn þá nokkuð og í ofanálag brottfall úr hópi sem þegar er minni, einmitt vegna A-prófsins. Árin áður en prófið var tekið upp rötuðu eins og 300 nemendur inn í lagadeild árlega og einhver hluti af þeim féll brott með tímanum, einkum eftir almennuna svonefndu fyrstu jólin.

Nú í haust var til dæmis þeim 100 sem gekk best í A-prófinu hleypt inn í deildina en stúdentsprófið vó þar á móti og gilti 20% á móti A-prófinu. Svo heltast einhverjir úr lestinni og þá verða nemendur of fáir.

Daði lýsir því að upphaflega hafi A-prófið verið tekið upp sem viðbrögð við gagnrýni á mikið brottfall úr laganáminu. Þannig hafi þessum þröskuldi verið komið fyrir, svo að þeim mun fleiri nemendur féllu ekki á brott þegar fram liðu stundir. „Prófin hafa síðan bara ekki reynst eins og við höfðum vonað,“ segir Daði.

Að mati Daða gengur illa upp að hafa inntökupróf inn í þetta nám á meðan ekki eru stöðluð stúdentspróf á Íslandi. A-prófið byggi á sænskri fyrirmynd, sem aftur byggi á bandarískri fyrirmynd (SATs), og sé próf í getu (e. aptitude). Á meðan eru stúdentspróf fremur próf í þekkingu á námsefni og á meðan þau eru ekki stöðluð, er gallað að ganga í meginatriðum út frá frammistöðu í getuprófi.

Þessar breytingar voru samþykktar á sviðsstjórnarfundi og taka sem segir gildi næsta haust. Verðandi laganemar sleppa því við A-prófið, sem annars felst í mati á getu þeirra í „málnotkun, talnaleikni, rökhugsun og til skilnings á texta og fleiri þáttum sem reynir á í háskólanámi,“ eins og segir á vefsíðu háskólans. Próf í almennri lögfræði – almennan – mun skera úr um hvort nemendur haldi áfram á annað ár, en ef menn falla í henni geta þeir tekið hana upp að vori, ella þurfa þeir að reyna aftur haustið eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert