Bæjarfulltrúar hafi vegið gróflega að skólafólki

Kennarar og stjórnendur Grunnskóla Seltjarnaness telja meirihluta bæjarstjórnar og fulltrúa ...
Kennarar og stjórnendur Grunnskóla Seltjarnaness telja meirihluta bæjarstjórnar og fulltrúa Viðreisnar/Neslistans hafa vegið gróflega að heilindum sínum, fagmennsku og starfsheiðri. mbl.is/Golli

„Stjórnendur og kennarar Grunnskóla Seltjarnarness lýsa vanþóknun á þeim ummælum og vinnubrögðum, meirihlutans og Viðreisnar/Neslistans, sem fram komu í beinni útsendingu frá bæjarstjórnarfundi 27. nóvember síðastliðinn. Þar var gróflega vegið að heilindum, fagmennsku og starfsheiðri stjórnenda og kennara skólans.“

Svo segir í ályktun fundar sem kennarar skólans héldu í dag á skólasafni Valhúsaskóla, en kennarar í Valhúsaskóla felldu niður kennslu í 7.-10. bekk skólans í dag vegna óánægju með framgöngu kjörinna fulltrúa og þeirra orða sem þeir hafa látið falla opinberlega um námsmat skólans.

„Stjórnendur og kennarar Grunnskóla Seltjarnarness hafa alltaf verið tilbúnir til að vinna með faglega gagnrýni. Þær fullyrðingar sem fram komu á fundinum og í fundargerð hafa þann eina tilgang að grafa undan skólastarfi og trausti til skólasamfélagsins,“ segja kennarar og stjórnendur í ályktun sinni, sem send var á fjölmiðla fyrir skemmstu.

Mbl.is hefur í dag reynt að ná í Ásgerði Halldórsdóttur, bæjarstjóra Seltjarnarness, vegna málsins, án árangurs. Þá hefur mbl.is ekki heldur náð tali af stjórnendum Valhúsaskóla eða formanni skólaráðs bæjarins.

mbl.is

Bloggað um fréttina