Færðu forsetahjónunum sokkapör

Fulltrúar Íslandsdeildar Amnesty færðu forsetahjónunum sokkapör að gjöf á Bessastöðum …
Fulltrúar Íslandsdeildar Amnesty færðu forsetahjónunum sokkapör að gjöf á Bessastöðum í dag. Ljósmynd/Aðsend

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú fengu sokkapar að gjöf á Bessastöðum í dag. Sokkaparið ber yfirskriftina FYRIR AMNESTY og eru sokkarnir seldir fyrir jólin til styrktar mannréttindastarfi samtakanna.  

Forsetahjónin klæddu sig strax í sokkana og Eliza nefndi að hún þyrfti endilega að festa kaup á þessum litríku sokkum í jólagjafir fyrir fjölskyldu eða vini, að því er segir í tilkynningu frá Amnesty. 

FYRIR AMNESTY-sokkapörin eru hönnuð af íslensku hönnuðunum Hildi Yeoman, Sævari Markúsi og Eygló. Allur ágóði sölunnar rennur til mannréttindastarfs Íslandsdeildar Amnesty International. 

Sokkarnir eru framleiddir í verksmiðju í Portúgal þar sem mikið er lagt upp úr sjálfbærni í framleiðsluferlinu. Ferlið er formlega vottað af Cotton Made in Africa sem er framtak í Afríku sem vinnur að því að efla lífskjör smábænda og stuðla að umhverfisvænni bómullarframleiðslu samkvæmt ströngum skilyrðum, að því er segir í tilkynningu.  

Sokkarnir eru til sölu á heimasíðu Amnesty, í Yeoman boutique, Ungfrúnni góðu og verslunum Hagkaups.

Í aðdraganda jóla selur Íslandsdeild Amnesty International sokkana FYRIR AMNESTY …
Í aðdraganda jóla selur Íslandsdeild Amnesty International sokkana FYRIR AMNESTY til styrktar mannréttindastarfi samtakanna. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is