Förum ekki af gráa listanum í febrúar

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og þingmaður …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og þingmaður Pírata. mbl.is/Hari

Telja verður ólíklegt að Ísland fari af gráum lista FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, í febrúar eins og stjórnvöld hafa bundið vonir við. Þetta segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is.

Vísar Þórhildur Sunna til þess sem komið hafi fram í máli sérfræðinga hjá fjármálaráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu sem komu fyrir nefndina á fundi hennar í morgun. Hún segir að líklega fari Ísland í fyrsta lagi af listanum í júní og hugsanlega ekki fyrr en í október. Starfshópurinn fundar þrisvar á ári, í febrúar, júní og október.

Verður Ísland enn á listanum árið 2021?

„Ég spurði hvort þetta lægi ljóst fyrir út á við. Mér fannst það þá ekki hafa komið nógu skýrt fram og ákvað því að deila því áfram sem kom fram hjá sérfræðingunum, eftir að hafa fengið leyfi þeirra, að þetta væri ekki rétt að við séum líkleg til þess að fara af þessum lista í febrúar, bara miðað við hvernig vinnulag FATF er,“ segir hún.

„Þannig að það er bara óraunhæft að þetta verði í febrúar,“ segir Þórhildur Sunna. Ferlið innan FAFT tæki tíma. „Mér finnst ekki rétt að fólk sé að gera sér væntingar um að við förum af þessum lista í febrúar þegar það er ekki það sem við erum að heyra í okkar athugun á þessu máli,“ segir hún og vísar til skoðunar nefndarinnar á málinu.

Kannski verði hins vegar ekki af því að Ísland fari af gráa listanum fyrr en í febrúar á þarnæsta ári að sögn Þórhildar Sunnu. „Ég meina, hver veit? Mér skilst að það þurfi margt að ganga vel til þess að við komumst af listanum í október.“ Stjórnvöld hafa gagnrýnt vinnulag FATF, sagt það hægfara sem hafi átt þátt í því að Ísland fór á listann.

mbl.is