Lilja krefst svara frá stjórn RÚV

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/​Hari

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur sent stjórn RÚV bréf þar sem er óskað eftir skýringum hvernig standi á því að listi yfir umsækjendur um stöðu útvarpsstjóra sé ekki birtur og hvers vegna það ríki ekki fullt gagnsæi. Umsóknarfrestur rennur út í dag.

Þetta kom fram í svari Lilju við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Miðflokksins, sem spurði hvers vegna það væri ekki gefið út hverjir sækist eftir stöðu útvarpsstjóra. 

Þorsteinn Sæmundsson.
Þorsteinn Sæmundsson. mbl.is/​Hari

Þorsteinn vitnaði meðal annars í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem meðal annars kom fram að RÚV hefði brotið lög með því að stofna ekki dótturfélag um samkeppnisrekstur.

Þingmaðurinn spurði hvort það ætti að gera það að vana hjá RÚV að brjóta lög og hvort ráðherra teldi það ásættanlegt.

Lilja sagði formlegan vettvang málsins hjá stjórn RÚV, sem hún hefði sent bréf þar sem skýringa er óskað. „Mér finnst að það eigi að vera fullt gagnsæi að því er varðar þetta ferli,“ sagði Lilja.

Hún sagðist hafa sent stjórn RÚV bréfið 28. nóvember og bíði eftir frekari skýringum. Það yrði að vera á hreinu hvort birta þyrfti nöfn umsækjenda eða hvort RÚV væri heimilt að gefa þau ekki upp og sagðist Lilja búast við svörum í dag. 

mbl.is