Ræðir tímasetningu kosninga

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun ræða við formenn allra flokka á Alþingi í vetur um það hvenær næstu þingkosningar fara fram. Samkvæmt lögum um stjórnskipan lýkur yfirstandandi kjörtímabili í lok október 2021.

Þetta kom fram í máli forsætisráðherra á þingi í dag þar sem hún svaraði fyrirspurn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata. 

Ég kem hingað upp til að spyrja forsætisráðherra hvort það liggi fyrir hvort kosningar verði haldnar á haustmánuðum 2021 eða hvort forsætisráðherra og ríkisstjórnin hyggist halda alþingiskosningar á eðlilegum tíma á vormánuðum 2021,“ sagði Þórhildur Sunna.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Hari

Þórhildur Sunna sagðist fagna svari Katrínar en sagði það heldur rýrt. Hún benti á að til stæði að breyta kosningalögum og mikilvægt væri að hafa góðan fyrirvara til þess. „Mér þykir samtal næsta haust um það hvort kosningum verði hugsanlega flýtt vera heldur seint í rassinn gripið ef ég ætti bara að lýsa minni eigin skoðun á því,“ sagði Þórhildur Sunna.

Katrín sagði að umræða um þessi mál í lok þingvetrar væru góður fyrirvari. Hún benti á að ekki stæði eingöngu til að ræða kosningalög heldur einnig breytingar á stjórnarskrá. Boðað yrði til fundar með formönnum flokka í lok þingvetrar til að ræða lok kjörtímabilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert