Reyndi að villa á sér heimildir undir áhrifum

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í síðustu viku karlmann í þriggja mánaða fangelsi, þar af einn mánuð skilorðsbundinn, fyrir að hafa ekið undir áhrifum áfengis og kókaíns og fyrir að hafa villt á sér heimildir.

Fram kom fyrir dómi að maðurinn á nokkurn sakaferil að baki en hann hafði verið sviptur ökuréttindum þegar hann var stöðvaður undir áhrifum 11. júlí.

Þegar lögregla hafði afskipti af manninum gaf hann upp annað nafn en sitt eigið og framvísaði ökuskírteini þess manns og leitaðist þar með eftir því að sá maður yrði sakaður um áðurnefnd brot.

Maðurinn játaði brot sín fyrir dómi og þykir þriggja mánaða dómur hæfileg refsing. Maðurinn var auk þess dæmdur til að greiða sakarkostnað og er sviptur ökurétti ævilangt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert