„Skólastarf er viðkvæmt starf“

Kennsla var felld niður í Valhúsaskóla í dag.
Kennsla var felld niður í Valhúsaskóla í dag. mbl.is/Golli

„Ég veit ekki til þess að það hafi gerst að pólitíkin hafi með beinum hætti skoðanir á grunnþætti fagmennsku kennara, sem er námsmat, og sett það inn á borð bæjarstjórnar,“ segir Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður grunnskólakennara. Kennarar og stjórnendur felldu niður kennslu í Val­húsa­skóla á Seltjarnarnesi í dag vegna þess að þeim þótti kjörnir fulltrúar hafi vegið að starfi sínu með ummælum sínum. 

Upphafið má rekja til þess að í vor kvörtuðu foreldrar undan lokamati fyrir 10. bekkinga og voru ósáttir við viðbrögð skólans. Erindið var lagt fyrir skólanefnd í sumar og ákveðið að fá utanaðkomandi skólastjóra til að taka saman greinargerð um námsmat í skólanum. Í stuttu máli var niðurstaðan sú að ýmislegt þyrfti að bæta, bæði í námsmati og upplýsingagjöf, en vinnan við nýtt námsmat var komin vel á veg. 

Á bæjarstjórnarfundi á miðvikudaginn í síðustu viku 27. nóvember harmaði meirihluti bæjarstjórnar ágreining sem kom upp um námsmat í skólanum. Í bókun meirihlutans eru nemendur og foreldrar beðnir afsökunar „á því tilfinningalega tjóni og óþægindum sem það kann að hafa valdið, og afleiðingum sem þetta hafði í för með sér“ að því er segir í bókuninni. 

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir formaður grunnskólakennara.
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir formaður grunnskólakennara. Ljósmynd/Aðsend

Þorgerður segir að þung orð hafi verið látin falla um skólamálin hjá kjörnum fulltrúum og eflaust hefðu sum þeirra mátt vera ósögð. „Skólastarf er viðkvæmt starf því þegar verið er að ræða um skólamál er verið að fjalla um börn,“ ítrekar hún.

Skólastjórnendur og kennarar hafa fundað í allan dag í Valhúsaskóla. Hvorki hefur náðst í þá né meirihluta bæjarstjórnar Seltjarnarness.

Frétt mbl.is

Í skriflegu svari frá sviðsstjóra menningar- og samskiptasviðs Seltjarnarnesbæjar við fyrirspurn mbl.is segir að kennt verði samkvæmt stundaskrá á morgun. Þá hefur meirihluti bæjarstjórnar óskað eftir fundi með skólastjórnendum. Þá mun foreldraráð Grunnskóla Seltjarnarness koma saman á fundi í kvöld til að ræða stöðu mála. 

mbl.is