109 fangar í einangrun í fyrra

Litla-Hraun.
Litla-Hraun. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Alls sættu 109 fangar einangrunarvist á síðasta ári samkvæmt úrskurði. Það er umtalsverð fjölgun frá árinu á undan þegar 87 fangar sættu einangrunarvist. Árið 2014 voru fangarnir 72 talsins.

Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Eymarsdóttur, þingmanns Pírata, um gæsluvarðhald og einangrunarvist fanga á árunum 2014 til 2018.

Fangarnir voru aftur á móti færri daga í einangrun í fyrra en árið áður, eða 927 á móti 1.006 árið 2017. Fæstir voru dagarnir árið 2014, eða 607 talsins. 

Gæsluvarðhaldsúrskurðum fjölgaði einnig á milli ára. Í fyrra voru þeir 158 talsins en árið áður 142. Árið 2014 voru úrskurðirnir 118.

Í fyrra voru 148 einstaklingar úrskurðaðir í gæsluvarðhald en árið áður voru þeir 139.

Einn var vistaður á öryggisgangi fangelsis í fyrra og dvaldi hann þar í 90 daga. Í fyrra var einn vistaður sömuleiðis og dvaldi hann á öryggisgangi í 14 daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert