Andlát: Ágúst G. Sigurðsson

Ágúst G. Sigurðsson.
Ágúst G. Sigurðsson.

Látinn er í Hafnarfirði Ágúst G. Sigurðsson, vélstjóri, skipatæknifræðingur, kennari og útgerðarmaður, 88 ára að aldri. Ágúst fæddist í Hafnarfirði 15. september 1931. Foreldrar hans voru Sigurður Eiríksson vélstjóri, f. 1903, d. 1977, og Jenný Ágústsdóttir húsmóðir, f. 1908, d. 1995. Ágúst var þriðji í röðinni af 11 börnum þeirra.

Ágúst kvæntist 21. mars 1953 eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Helgu Lárusdóttur útgerðarkonu, f. 1933, dóttur Lárusar Sigurbjörnssonar, cand. phil., rithöfundar og skjala- og minjavarðar Reykjavíkurborgar, f. 1903, d. 1974, og Ólafíu Sveinsdóttur, f. 1903, d. 1937.

Ágúst lauk Flensborgarskóla í Hafnarfirði 1948, Iðnskóla Hafnarfjarðar 1950, var í vélvirkjanámi í Vélsmiðju Hafnarfjarðar 1948-52; hlaut meistararéttindi 1952. Hann lauk vélstjóraprófi í Vélskólanum í Reykjavík 1954 og rafmagnsdeild 1955, prófi í skipasmíðum í Maskinteknikum í Odense í Danmörku og röntgenmyndatökum af rafsuðu í Teknologisk Institut í Kaupmannahöfn 1959. Hann var vélstjóri á bv. Ísólfi 1954-55 og bv. Júlí 1955-56, vann hjá Skipaskoðun ríkisins 1960-63, var skipaeftirlitsmaður hjá Skipadeild SÍS 1963-66, tæknilegur framkvæmdastjóri Stálvíkur skipasmíðastöðvar 1966-69, en þar var hann jafnframt einn af stofnendum og stór hluthafi, og kennari í Vélskóla Íslands 1969-93. Hann annaðist hönnun og tæknilega ráðgjöf vegna smíði fiskiskipa fyrir ýmsar skipasmíðastöðvar, bæði innlendar og erlendar.

Árið 1970 hófu Ágúst og Guðrún rekstur útgerðarfyrirtækisins Stálskip hf. en þá höfðu þau fest kaup á nýlegum breskum síðutogara, Boston Wellvale, sem strandað hafði við Arnarnes í Ísafjarðardjúpi í desember 1966. Gerði Ágúst skipið upp og fékk það síðar nafnið Rán. Þetta var fyrsta skipið og upphafið að meira en fjögurra áratuga útgerðarsögu þeirra hjóna. Á þessu tímabili gerðu þau út mörg skip, allt frá síðutogurum upp í stór frystiskip. Togarar í þeirra eigu báru aðallega nöfnin Rán, Ýmir og Þór.

Börn þeirra Ágústar og Guðrúnar eru Jenný tannlæknir, f. 1953, Ólafía Lára kennari, f. 1959, og dr. Helga öldrunartannlæknir, f. 1966. Barnabörnin eru fimm og barnabarnabörnin eru fjögur.

Útför Ágústar verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju miðvikudaginn 11. desember klukkan 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »