Bílvelta í Innri-Njarðvík um helgina

Bíllinn var óökufær eftir veltuna og ökumaðurinn ætlaði að leita …
Bíllinn var óökufær eftir veltuna og ökumaðurinn ætlaði að leita til læknis. mbl.is/Eggert

Bílvelta varð innanbæjar í Reykjanesbæ um helgina, er ökumaður sem fór um götuna Brekadal í Innri-Njarðvík missti af beygju sem hann hugðist taka og ætlaði sér að hemla og snúa við. Það gekk ekki betur en svo að bíll hans hafnaði utan vegar og valt út í móa. Bíllinn var óökufær eftir veltuna og ökumaðurinn ætlaði að leita til læknis, þar sem hann kenndi eymsla.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Þar segir einnig að rúta hafi runnið út af Norðurljósavegi við Bláa lónið í hálku og vegið salt á vegarkantinum. Engir farþegar voru um borð í rútunni. Dráttarbifreið var fengin til að draga hana upp á veginn.

Lögreglan á Suðurnesjum kærði einnig nokkra ökumenn fyrir of hraðan akstur um helgina. Sá sem hraðast ók var á 132 kílómetra hraða á Reykjanesbraut. Um erlendan ferðamann var að ræða. Lögregla segir svo líka frá því að nokkrir ökumenn hafi verið stöðvaðir, grunaðir um að vera vímaðir undir stýri.

mbl.is