Er fær í flestan sjó

Ragnheiður Ragnarsdóttir hefur víða látið til sín taka.
Ragnheiður Ragnarsdóttir hefur víða látið til sín taka. mbl.is/RAX

Sýningar á sjöttu seríu sjónvarpsþáttaraðarinnar Vikings, sem History Channel framleiðir, hefjast í Bandaríkjunum 4. desember og eins og í fimmtu seríunni verður Ragnheiður Ragnarsdóttir í hlutverki Gunnhildar, eiginkonu Björns járnsíðu, sonar Ragnars Loðbrókar. „Hlutverkið stækkar með hverjum þætti og Björn og Gunnhildur eru í hópi helstu persóna, þegar hér er komið sögu,“ segir Ragga, eins og hún er gjarnan kölluð.

Um árabil var Ragga ekki aðeins ein besta sundkona landsins heldur í hópi bestu íþróttamanna Íslands. Hún var margfaldur Íslandsmeistari, lét að sér kveða á alþjóðavettvangi og keppti meðal annars á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004 og Peking 2008. Þegar fyrsta serían var sýnd fyrir um sex árum féll Ragga fyrir henni. „Þá ákvað ég að ég ætlaði að leika í þessum þáttum og vann mig í átt að því eins og í öllu öðru, sem ég hef tekið mér fyrir hendur.“ Hún segist hafa tamið sér þennan hugsunarhátt í sundinu, að setja sér markmið og vinna að því að ná þeim í kjölfarið.

Sundið góður grunnur

Ragga var í leiklistarnámi í Los Angeles og segist hafa rætt við alla sem hún gat talað við til þess að komast í samband við einhverja sem voru viðriðnir þættina. „Það tók mig langan tíma að ná markmiðinu en hvert samtal, hver dagur, færði mig nær því. Ég var ekki með umboðsmann, þegar ég landaði hlutverkinu, heldur kynntist fólki, sem kynnti mig fyrir fólki, sem kom mér á endanum í samband við handritshöfundinn Michael Hirst, þegar búið var að taka upp fjórar seríur. Ég sagði honum að ég væri sú sem hann væri að leita að og hann tók mig á orðinu.“

Ragnheiður í ham.
Ragnheiður í ham. Ljósmynd/MGM/History Channel

Hlutverkið er mun veigameira en Ragga segist hafa gert sér grein fyrir. „Ég sá fyrir mér flotta búninga, hár, förðun, sverð, mikla bardaga og fleira en þetta er í raun miklu meira.“ Hún segir að keppnisskapið komi að góðum notum og hún lifi sig inn í bardagana. „Líkamlega álagið er mikið og það á vel við mig,“ heldur hún áfram. „Ég berst í mold og drullu, er í kulda, stekk ofan í vatn, sjó, ár og læki og ber tíu kílóa skjöld fyrir mig. Þetta er ekki auðvelt og ekki fyrir hvern sem er, en sundferillinn er góður grunnur.“

Fimmta serían var frumsýnd í byrjun árs þannig að nær ár er liðið frá þeim viðburði. Ragga verður viðstödd frumsýninguna í Los Angeles. „Þetta er stór áfangi og við verðum þarna nokkur saman að halda upp á hann,“ segir hún.

Með auknum verkefnum hefur staðan breyst. Ragga er komin með umboðsmann og framkvæmdastjóra og það vegur þyngra þegar kemur að áheyrnarprufum og fundum. „Ég fer mikið á milli en sonur minn er í Ísaksskóla og því reyni ég að vera eins mikið og ég get á Íslandi, en hoppa út þegar nauðsyn krefur vegna verkefna.“

Auk hlutverks Gunnhildar er Ragga í ýmsum öðrum verkefnum og þegar hún er ekki að leika sinnir hún meðal annars fatahönnun og heldur merki Margrétar Árnadóttur, ömmu sinnar, M-Design, á lofti. „Hún lést fyrir um tveimur árum en við erum að reyna að halda áfram á sömu braut.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. nóvember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert