Flestar utanlandsferðir hjá Vinnumálastofnun

Vinnumálastofnun.
Vinnumálastofnun. mbl.is/​Hari

Farið var í 225 utanlandsferðir hjá Vinnumálastofnun frá árinu 2016 þangað til í september 2019.

Þetta kemur fram í svari barna- og félagsmálaráðherra við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Miðflokksins, um utanlandsferðir á vegum ráðuneytisins.

Ferðirnar hjá Vinnumálastofnun eru flestar á meðal stofnana ráðuneytisins en þeim hefur  fækkað um rúmlega helming á þessu ári frá því í fyrra. Næstflestar eru þær hjá Mannvirkjastofnun, eða 182 talsins og þar á eftir kemur Vinnueftirlit ríkisins með 158 ferðir á þessum þremur árum.

Fram kemur að Vinnumálastofnun hafi ekki haldið sérstaklega utan um ferðir og fjölda starfsmanna sem fara í þær hverju sinni. Hver aðili getur farið oftar en einu sinni og fjöldi starfsmanna í hverri ferð getur verið fleiri en einn.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ráðherra hefur farið í 27 utanlandsferðir á þessu tímabili, sem nær frá árinu 2016 til fyrstu níu mánaða þessa árs, aðstoðarmenn ráðherra hafa farið í 20 ferðir og yfirstjórn ráðuneytisins í 138 ferðir. Ferðum yfirstjórnarinnar hefur fækkað úr 43 í fyrra í 7 á þessu ári.

Almennir starfsmenn hafa farið í 432 ferðir á þessum þremur árum. Þar af hafa þeir farið í 36 ferðir á þessu ári en fóru í 149 á því síðasta.

Þess bera að geta að 1. janúar síðastliðinn var velferðarráðuneytinu skipt upp í heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.

Engar af ferðum ráðuneytis og stofnana hafa verið kolefnisjafnaðar.

Fram kemur í svarinu að flestar stofnanir hafi yfir að ráða fjarfundabúnaði. Allur gangur er á því hvort haldin hefur verið skrá yfir fjölda funda með fjarfundabúnaði hjá stofnununum.

mbl.is