Frozen-áhugi strákanna afhjúpaður?

Mikill áhugi karlmanna á sýningu á Disney-myndinni Frozen II hefur vakið töluverða athygli. Stefnir í troðfullan sal af strákum í Sambíóunum við Álfabakka á eftir þar sem þeir munu fylgjast með framhaldinu af ævintýrum Elsu og Önnu á hvíta tjaldinu. Einhverjir hafa jafnvel séð sér leik á borði og boðið miða til sölu á uppsprengdu verði.

Viðburðurinn hefur fengið mikla athygli á Facebook þar sem framtakinu hefur verið fagnað. Fannar Sigurðsson átti frumkvæði að sýningunni ásamt bróður sínum og hann segir áhugann ósvikinn. „Þetta er náttúrulega bara svona Disney-teiknimynd og fyrsta myndin kemur út þegar við erum svona 13 — 14 ára. Þannig að þetta er svona smá nostalgía,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Í myndskeiðinu er rætt við Fannar þar sem annarri mögulegri útskýringu er varpað fram og ekki er hægt að segja að Fannar útiloki hana. 

mbl.is