Hefðbundið desemberveður í vændum

mbl.is/​Hari

Í dag er minnkandi suðlæg átt og er gul viðvörun í gildi vegna vinds á NA-verðu landinu, einkum nærri Tröllaskaga. Sú viðvörun rennur út kl. 9, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

„Víða má búast við rigningu í dag og þegar líður á daginn mun kólna hjá okkur svo að úrkoman verður orðin að slyddu um V-vert landið í kvöld. Á morgun stefnir í suðvestlæga átt og éljagang víða, að undanskildu NA-verðu landinu sem ætti að haldast þurrt. Því má búast við hefðbundnara desemberveðri á morgun en er búið að vera síðustu daga þar sem mildar suðlægar áttir hafa ráðið ríkjum.

Á fimmtudag og föstudag er útlit fyrir norðlæga átt og vetrarveður á norðanverðu landinu með köldu veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Sunnan 10-18 m/s, en hvassara í vindstrengjum N-lands í fyrstu. Dregur úr vindi með morgninum og kólnar, en áfram stíf suðlæg átt austast í dag. Rigning með köflum um mestallt land og talsverð úrkoma SA-til eftir hádegi. Hiti 2 til 8 stig síðdegis, en kaldara í kvöld.

Suðvestlæg átt 3-10 m/s á morgun, en vestan strekkingur með S-ströndinni. Víða éljagangur, en þurrt NA-lands. Hiti um og undir frostmarki.

Suðlæg átt 5-10 m/s, en vestan strekkingur með S-ströndinni. Éljagangur víða, en bjart með köflum NA-til. Kólnandi, frost 0 til 7 stig síðdegis.

Á fimmtudag og föstudag:
Snýst í norðlæga átt með snjókomu eða éljum norðanlands, en yfirleitt þurrt og bjart syðra. Frost 1 til 10 stig.

Á laugardag:
Vaxandi austlæg átt með snjókomu í fyrstu, en síðan slyddu eða jafnvel rigningu. Lengst af þurrt NA-lands. Frost 0 til 5 stig, en frostlaust með suðurströndinni.

Á sunnudag:
Austanátt með snjókomu eða rigningu, en þurrt að kalla um landið NA-vert. Hiti 0 til 5 stig.

Á mánudag:
Útlit fyrir suðlæga átt og úrkomu með köflum. Hiti breytist lítið.

mbl.is