Kallar á mikinn undirbúning

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikilvægt er að farið verði eftir efninu í skýrslu þverpólitískrar nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands eigi þjóðgarðurinn að verða að veruleika. Það kallar á mikinn undirbúning í aðdragandanum að stofnun hans.

Þar má meðal annars nefna orkunýtingu, einkaframtak innan þjóðgarðsins og sátt við aðliggjandi sveitarfélög og hagsmunaaðila.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í tilefni þess að nefndin skilaði umhverfis- og auðlindaráðherra skýrslunni í dag.

Vilhjálmur, sem sat í nefndinni, segir að nefndin hefði ekki haft það hlutverk að ákveða hvort stofna ætti þjóðgarð eða ekki, heldur að koma með áherslur og tillögur að útfærslu á miðhálendisþjóðgarði.

Hann segir nefndina hafa átt gott samstarf við núverandi nytjaréttar- og haghafa miðhálendis. „Miðhálendið er í góðum höndum þessara aðila í dag og mikilvægt að vinna næstu skref í fullu samráði og sátt við þá,“ segir hann.

Yfirlýsingin í heild sinni:

„Miðhálendi Íslands er víðfeðmt svæði þar sem fjölbreytt starfsemi fer fram á vegum ólíkra hópa samfélagsins sem eiga það sameiginlegt að þykja vænt um hálendið og náttúru þess. Miðhálendið á sér langa sögu sem tengist auðlindanýtingu og byggð í landinu. Skipulag og gagnsætt fyrirkomulag um vernd- og nýtingu er mikilvægt til að fólk og fyrirtæki geti nýtt sér allt það sem hálendið hefur upp á að bjóða á sjálfbæran hátt, hvort sem það er til verðmætasköpunar, afþreyingar eða lýðheilsu. Þverpólitísk nefnd var skipuð til að koma með áherslur og tillögur að útfærslu á miðhálendisþjóðgarði. Nefndin hafði ekki það hlutverk að ákveða hvort stofna ætti þjóðgarð eða ekki. Nefndin hafði mikið og gott samráð við núverandi nytjarréttar- og haghafa miðhálendisins. Miðhálendið er í góðum höndum þessara aðila í dag og mikilvægt að vinna næstu skref í fullu samráði og sátt við þá.

Skýrsla nefndarinnar er vel unnin og það er mikilvægt að farið verði eftir efni hennar eigi miðhálendisþjóðgarður að verða að veruleika. Mikilvægt er að atriði sem fram koma í skýrslunni verði uppfyllt, en ljóst er að það kallar á mikinn undirbúning í aðdragandanum að stofnun þjóðgarðsins.

Má þar m.a. nefna orkunýtingu, einkaframtak innan þjóðgarðsins og sátt við aðliggjandi sveitarfélög og hagsmunaaðila. Hvað orkunýtingu og orkudreifingu snertir skal það vera að fullu í samræmi við áætlanir Alþingis. Mikilvægt er að þjóðgarðurinn skuli byggður upp á samstarfssamningum um innviði og rekstur þjóðgarðsins, og að slíkar áætlanir liggi fyrir áður en þjóðgarður verði stofnaður. Þá skal leitast við að rekstur þjóðgarðsins verði eins sjálfbær og unnt er, helst að fullu.

Þessi sjónarmið eru í samræmi við landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins en þar segir m.a.: „Einkaframtakið reynist vel í náttúruvernd og það þarf að nýta frekar. Huga þarf vel að náttúruperlum landsins og heimila gjaldtöku til að vernda og stýra aðgangi ferðamanna að viðkvæmum svæðum og fjármagna viðhald og uppbyggingu.“ Enn fremur segir um miðhálendisþjóðgarð: „. Nokkur umræða hefur verið um uppbyggingu þjóðgarða á miðhálendi Íslands. Ákvörðun um hana þarf að vera í sátt við aðliggjandi sveitarfélög. Nauðsynlegt að búið sé að finna leið til þess að tryggja nægan raforkuflutning um allt land.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert