Mesta fjölgun gistinátta á árinu

Ferðamenn á góðri stundu við höfnina.
Ferðamenn á góðri stundu við höfnina. mbl.is/​Hari

Gistinætur á hótelum námu rúmum 818 þúsund í október og fjölgaði þeim um 2,7% frá sama mánuði í fyrra. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 5,2% og gistinóttum erlendra ferðamanna fjölgaði um 2,7%.

Þetta er mesta fjölgun gistinátta erlendra ferðamanna á þessu ári en áður hafði fjölgunin verið næstmest í ágúst, 1,8%, að því er kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Á fyrstu sex mánuðum ársins mældist samfelld fækkun erlendra ferðamanna borið saman við sama tímabil árið áður. Á þremur af síðustu fjórum mánuðum hefur gistinóttum erlendra ferðamanna farið fjölgandi á ný.

Ástæðan fyrir þessari fjölgun gistinátta Íslendinga er líklega aukinn áhugi á ferðalögum innanlands á kostnað ferðalaga erlendis. Brottförum Íslendinga til útlanda fækkaði um 10,9 — 14% á tímabilinu ágúst — september.

Hraktir ferðamenn við Hallgrímskirkju.
Hraktir ferðamenn við Hallgrímskirkju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Langmesta fjölgunin á Austurlandi 

Sé litið til fyrstu 10 mánaða ársins sést að gistinóttum hefur fjölgað langmest á Austurlandi, eða um 14% milli ára. Á Norðurlandi fjölgaði gistinóttum um 5,6% og um 2,8% á Suðurnesjum. Mest fækkaði gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu, eða um 4%, en á Vesturlandi og Vestfjörðum fækkaði þeim um 2%.

Erlendum ferðamönnum hefur fækkað verulega á þessu ári og skýrir það fækkun gistinátta á hótelum. Fjölgun gistinátta á Austurlandi hefur einungis komið til vegna erlendra ferðamanna en gistinóttum Íslendinga fækkaði frá fyrra ári. Alls fjölgaði gistinóttum erlendra ferðamanna í landshlutanum um 16,5% á fyrstu 10 mánuðum ársins en gistinóttum Íslendinga fækkaði um 1,4%.

mbl.is