Ríkislögreglustjóri hættir um áramót

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri lætur af embætti um áramót.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri lætur af embætti um áramót. mbl.is/Hari

„Ég hef óskað eftir því við dómsmálaráðherra að láta af embætti ríkislögreglustjóra um næstu áramót og hefur ráðherra fallist á lausnarbeiðni mína,“ segir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri í bréfi til starfsmanna embættisins. Hann segir jafnframt að óskað hafi verið eftir því að hann taki að sér sérstaka ráðgjöf við ráðherra á sviði löggæslumála, sem meðal annars lúti að framtíðarskipulagi löggæslu.

„Ég stíg sáttur frá borði eftir að hafa gegnt þessu ábyrgðarmikla starfi í 22 ár. Nú þegar boðaðar eru breytingar á yfirstjórn lögreglumála í landinu tel ég rétt að hleypa að nýju fólki og er mér ljúft og skylt að vera ráðherra í framhaldinu til ráðgjafar um framtíðarskipulag löggæslunnar,“ segir Haraldur í bréfi sínu til starfsmanna, sem hann óskaði eftir að trúnaður ríkti um þar til Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefði kynnt breytingarnar á blaðamannafundi, sem boðað hefur verið til í Ráðherrabústaðnum kl. 13.

Haraldur segir í bréfinu að eðli málsins samkvæmt gusti um þann sem gegni starfi ríkislögreglustjóra og hann hafi ekki farið varhluta af því. „Þetta er það umhverfi sem embættið býr við og við því er ekkert að segja. Nýleg gagnrýni mín á tiltekna þætti í starfsemi og skipulagi lögreglunnar hefur ekki verið öllum að skapi,“ skrifar Haraldur, sem segist vænta þess að í vinnu við framtíðarskipulag lögreglunnar verði ábendingar teknar til skoðunar eins og fjölmargt annað sem þurfi að gaumgæfa.

Haraldur segir að á þessum tímamótum standi eftir sterkt embætti ríkislögreglustjóra, sem í gegnum árin hafi verið treyst fyrir nýjum og þýðingarmiklum verkefnum. „Það verður undir næsta ríkislögreglustjóra komið að takast á við framtíðaráskoranir embættisins og frá mér fær hann hvatningu og óskir um velgengni. Eftirmaður minn getur reitt sig á öflugan hóp starfsmanna og yfirstjórn embættisins sem drifið hefur starfsemina af eljusemi og faglegum metnaði,“ skrifar Haraldur.

„Ég hef eignast trausta vini og samstarfsfólk sem ég kveð sæll og þakklátur fyrir það traust sem það hefur sýnt mér í áratugi um leið og ég bið þau að hafa hugfast að störf þeirra felast fyrst og síðast í að þjóna fólkinu í landinu og réttarríkinu.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert